Handbolti

Þjóð­verjar veðja á Al­freð næstu árin en setja fyrir­vara

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason hefur náð góðum árangri með þýska landsliðið og er sjálfsagt ætlað að stýra því til verðlauna á næstu árum.
Alfreð Gíslason hefur náð góðum árangri með þýska landsliðið og er sjálfsagt ætlað að stýra því til verðlauna á næstu árum. Getty/Federico Gambarini

Þýska handknattleikssambandið tilkynnti í dag um nýjan samning við Alfreð Gíslason sem verður áfram þjálfari þýska karlalandsliðsins út febrúar 2027.

Alfreð verður þar með treyst til að stýra þýska liðinu fram yfir heimsmeistaramótið sem fram fer í Þýskalandi í janúar 2027.

Reyndar er sá fyrirvari settur að Þýskaland verði að komast í gegnum ólympíuumspilið í þessum mánuði. Annars renni samningur Alfreðs út á þessu ári.

Alfreð hefur stýrt þýska liðinu síðustu fjögur ár og kom liðinu í undanúrslit á heimavelli á EM í janúar síðastliðnum, þar sem Þýskaland endað í 4. sæti.

„Ég er mjög þakklátur fyrir það traust og tækifæri sem ég fæ til að stýra landsliðinu í vegferðinni fram til 2027. Það býr gríðarlega mikið í þessu liði til að ná afar langt á næstu stórmótum. Næstu dagar fara hins vegar í að gera allt til þess að allt gangi upp í undankeppni Ólympíuleikanna,“ sagði Alfreð á heimasíðu þýska sambandsins.

Þýskaland verður á heimavelli í undankeppni Ólympíuleikanna, 14.-17. mars, og berst við nýju lærisveinanna hans Dags Sigurðssonar í Króatíu, sem og Austurríki og Alsír, um tvö laus sæti á leikunum í París í sumar.

Alfreð, sem er 64 ára gamall, stýrði Þýskalandi til 5. sætis á síðasta heimsmeistaramóti, fyrir rúmu ári síðan, og eftir árangurinn á EM er liðið öruggt um sæti á næsta HM, í janúar næstkomandi.

Auk þess að semja við Alfreð þá framlengdi þýska sambandið samning sinn við Markus Gaugisch, þjálfara kvennalandsliðsins, fram á sumarið 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×