Körfubolti

Ó­víst með þátt­töku Kanes í stór­leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
DeAndre Kane hefur spilað vel fyrir Grindavík í vetur.
DeAndre Kane hefur spilað vel fyrir Grindavík í vetur. vísir/diego

Grindvíkingar gætu verið án síns næststigahæsta leikmanns, DeAndre Kane, þegar þeir sækja Keflvíkinga heim í lokaleik 19. umferðar Subway deildar karla í körfubolta í kvöld.

Í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar, greindi Stefán Árni Pálsson, stjórnandi Subway Körfuboltakvölds, að Kane yrði líklega ekki með Grindavík í stórleiknum í kvöld.

„Það eru líka tíðindi af þeim leik, að DeAndre Kane verður líklega ekki með. Hann er með sýkingu í eyranu. Hann er í mjög miklu basli með þetta. Hann hefur ekki fengið grænt ljós frá lækni. Það kemur bara í ljós á eftir,“ sagði Stefán Árni um möguleikana á að Kane verði með gegn Keflavík.

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir neðan. Umræðan um Grindavík hefst á 29:00.

Grindavík hefur unnið átta leiki í röð og er í 3. sæti Subway deildarinnar með 24 stig. Keflavík, sem hefur unnið þrjá leiki í röð, er einnig með 24 stig í 5. sæti deildarinnar.

Í vetur er Kane með 20,9 stig, 6,1 frákast og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Leikur Keflavíkur og Grindavíkur hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Subway Körfuboltakvöld er svo á dagskrá eftir leikinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×