Fótbolti

Leik­maður Real skiptir um lands­lið

Sindri Sverrisson skrifar
Brahim Díaz spilar með einu af bestu félagsliðum heims, Real Madrid.
Brahim Díaz spilar með einu af bestu félagsliðum heims, Real Madrid. Getty/Denis Doyle

Brahim Díaz, miðjumaður Real Madrid, hefur ákveðið að hætta að spila fyrir spænska landsliðið og ætlar frekar að spila fyrir Marokkó.

Frá þessu greinir hinn virti íþróttamiðill The Athletic en Díaz, sem er 24 ára gamall, hefur spilað einn A-landsleik fyrir Spán.

Það þýðir að samkvæmt reglum FIFA má hann skipta um landslið en sá möguleiki hverfur ef leikmenn spila fleiri en þrjá A-landsleiki fyrir sömu þjóð.

Díaz er fæddur á Malaga á Spáni en á marokkóskan föður. Eini landsleikur hans fyrir Spá var vináttulandsleikur gegn Litháen árið 2021 en samkvæmt reglum FIFA þurfa þrjú ár að líða áður en leikmenn geta spilað fyrir annað landslið, og er þeim tíma nú að ljúka.

The Athletic segir að FIFA eigi enn eftir að staðfesta skiptin en að marokkóska sambandið hafi sótt það stíft síðustu ár að Díaz myndi spila fyrir Marokkó. Knattspyrnusambönd Spánar og Marokkó vildu ekki tjá sig um málið við miðilinn.

Díaz hefur verið leikmaður Real Madrid frá árinu 2019 en var í þrjú ár að láni hjá AC Milan og varð þar meðal annars ítalskur meistari árið 2022. Áður var hann leikmaður Manchester City en er uppalinn hjá Málaga.

Díaz hefur skorað fjögur mörk í 23 leikjum með Real í spænsku 1. deildinni í vetur, en liðið er með sjö stiga forskot á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×