Útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og X977 standa í sameiningu að verðlaununum. Markmiðið er að gefa íslenskum útvarpshlustendum og tónlistarunnendum tækifæri að velja og verðlauna íslenskt tónlistarfólk, hljómsveitir og einstaklinga sem sköruðu fram úr í tónlist á síðastliðnu ári, kosning fór fram inn á Vísi fyrr á árinu og stóð yfir í tvær vikur.
„Hlustendaverðlaunin eru gamalgróin hátíð og í ár ætlum við að færa hana aftur í sína upprunalegu mynd. Standandi partý með geggjuðum tónlistaratriðum! Hátíðargestir og áhorfendur heima í stofu verða svo sannarlega ekki svikin af skemmtun og ýmsum leynilegum uppákomum. Svo er líka hrikalega gaman að halda veislu þar sem margt af vinsælasta tónlistarfólki landsins eru samankomin undir einu þaki að fagna tónlistinni, hlustendum og hvert öðru,“ segir Ósk Gunnarsdóttir viðburðarstjóri Hlustendaverðlaunanna.
Í kvöld kemur í ljós hvað tónlistarfólk þjóðin hefur kosið en veitt eru ellefu verðlaun.
Verðlaunin eru:
Söngvari ársins
Söngkona ársins
Flytjandi ársins
Nýliði ársins
Plata ársins
Myndband ársins
Plata ársins
Lag ársins
Auk nýs verðlaunaflokks sem er X ársins verða veitt Heiðursverðlaun á hátíðinni.
Stjórn Kítón velur svo sigurvegara Kítón verðlaunanna. Sigurvegarinn fær 250.000 króna peningastyrk frá Smart á Íslandi.
Þau sem munu koma fram á hátíðinni eru:
Herra Hnetusmjör
GDRN
Hipsumhaps
Diljá
Magni
Stjórnin
Patrik
Mugison
XXX Rottweiler
Herra Hnetusmjör mun frumflytja nýtt lag á hátíðinni sem og tónlistarkonan GDRN.