Handbolti

Mögnuð Elín Jóna mikil­vægasti leik­maður síðustu um­ferðar undan­keppninnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elín Jóna varði nær allt sem á markið kom.
Elín Jóna varði nær allt sem á markið kom. Vísir/Anton Brink

Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir var hreinlega mögnuð þegar Ísland tryggði sér sæti á EM 2024 kvenna í handbolta sem fram fer í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss síðar á þessu ári.

Ísland lagði Færeyjar með fjögurra marka mun, 24-20, í lokaumferð undankeppninnar. Elín Jóna átti svo sannarlega sinn þátt í sigrinum en hún varði 17 skot í leiknum.

„Mér líður rosa vel, við gerðum það sem við ætluðum að gera. Þetta er geðveikt, tvö stórmót í röð og það er eitthvað sem maður er stoltur af. Vörnin var að standa sig vel og planið okkar gekk mjög vel, ef það var eitthvað sem fór úrskeiðis þá löguðum það í gegnum leikinn. Það virkaði allt mjög vel í dag,“ sagði Elín Jóna í viðtali við Vísi eftir leik.

Handknattleikssamband Evrópu er á því að allt sem Elín Jóna gerði hafi virkað vel og var hún valin leikmaður umferðarinnar á samfélagsmiðlum sambandsins. Var birt myndband af bestu vörslum hennar í leiknum.

Hvað varðar lokamótið í nóvember er Ísland með skýr markmið að mati markvarðarins.

„Markmiðið er að komast áfram í milliriðilinn. Það er algjörlega markmiðið, mér finnst þetta mjög flott miðað við hvað það er langt síðan við höfum verið á EM og erum mjög spenntar að sýna hvað við getum.“

Elín Jóna var mögnuð gegn Færeyjum.Vísir/Anton Brink

Tengdar fréttir

Ísland ekki í neðsta flokki fyrir EM

Í fyrsta skipti í tólf ár verður nafn Íslands í skálinni þegar dregið verður í riðla Evrópumóts kvenna í handbolta eftir tíu daga. Ísland er í þriðja styrkleikaflokki og því í fyrsta sinn ekki í neðsta flokknum.

„Við viljum vera inn á öllum Evrópumótum“

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, var kampakátur eftir fjögurra marka sigur á Færeyjum á Ásvöllum í dag. Með sigrinum er það ljóst að íslenska liðið leikur á Evrópumótinu í nóvember og það í fyrsta sinn síðan 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×