Hlín varð nefnilega aðeins sjötta íslenska konan til að skora á móti Þýskalandi hjá A-landsliðum.
Hlín jafnaði metin í 1-1 á 23 mínútu í gær en íslenska liðið tapaði á leiknum á endanum 3-1.
Markatala íslenska liðsins á móti Þýskalandi er 7-69. Sex leikmenn hafa skorað þessi sjö mörk.
Fyrsta markið á móti Þýskalandi skoraði Katrín María Eiríksdóttir í 1-4 tapi á Kópavogsvelli 27. júlí 1986.
Árið eftir skoruðu þær Ragnheiður Víkingsdóttir og Guðrún Sæmundsdóttir í 3-2 tapi á útivelli. Þær áttu báðar dætur í landsliði Íslands í gær því Ragnheiður er móður Hildar Antonsdóttur og Guðrún er móðir Hlínar.
Markið hennar Guðrúnar kom á 54. mínútu leiksins og hún skoraði það með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Aukaspyrnuna tók hún af um 27 metra færi og skoraði í stöngin og inn.
Guðrún spilaði sem miðvörður en náði því sumarið 1989 að verða markadrottning í deildinni þrátt fyrir að spila sem varnarmaður. Það sumar skoraði hún sjö af tólf mörkum sínum beint úr aukaspyrnu.
Það liðu 36 ár, sjö mánuðir og þrír dagar á milli marka mæðgnanna á móti Þýskalandi.
Hin þrjú landsliðsmörk Íslands á móti Þýskalandi komu í eina sigurleiknum sem var 20. október 2019. Dagný Brynjarsdóttir skoraði tvö mörk í þeim leik og Elín Metta Jensen eitt.