Handbolti

Þórsarar tryggðu sér odda­leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Þórsarar fögnuðu sennilega jafn innilega í kvöld og þeir gerðu þegar þessi mynd var tekin fyrr í vetur
Þórsarar fögnuðu sennilega jafn innilega í kvöld og þeir gerðu þegar þessi mynd var tekin fyrr í vetur Facebook Þór Akureyri - Handbolti

Einvígi Þórs frá Akureyri og Harðar frá Ísafirði er á leið í oddaleik eftir að norðanmenn unnu góðan fimm marka sigur í kvöld.

Harðarmenn unnu fyrsta leik liðanna á Ísafirði 28-25 og var því að duga eða drepast fyrir Þórsara í kvöld. Þeir byrjuðu leikinn betur en gestirnir tóku við sér undir lok fyrri hálfleiks og leiddu í hálfleik, 13-15.

Þórsarar voru fljótir að jafna leikinn í seinni hálfleik og eftir að þeir komust yfir 18-17 létu þeir forystuna ekki aftur af hendi. Brynjar Hólm Grétarsson fór mikinn í sóknarleik Þórsara og skoraði ellefu mörk og er þá með 10,5 mörk að meðaltali í einvíginu. Þá átti Kristján Páll Steinsson mjög góðan leik í marki Þórsara og varði 23 skot, eða tæplega 47 prósent af þeim skotum sem hann fékk á sig.

Það verður því leikið til þrautar í einvíginu á Ísafirði mánudaginn 15. apríl. Sigurvegarinn í þeim leik mætir Fjölni í úrslitaeinvígi um sæti í Olís-deildinni að ári og fylgir ÍR upp í deild þeirra bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×