Körfubolti

„Breytir ein­víginu ansi mikið“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pétur Ingvarsson er þjálfari Keflavíkur.
Pétur Ingvarsson er þjálfari Keflavíkur. Vísir/Vilhelm

„Basile náði að klára þetta þegar hann kom sér á körfuna. Við áttum erfitt með að dekka hann,“ sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur í viðtali við Andra Má Eggertsson eftir leik Keflavíkur og Grindavíkur í kvöld. Keflavík er 1-0 undir í einvíginu.

Leikurinn í kvöld var æsispennandi allt til loka. Leikmaðurinn sem Pétur nefnir er Dedrick Basile sem líkt og Pétur segir kláraði leikinn fyrir Grindavík undir lokin.

Keflavík missti sinn besta mann, Remy Martin, af velli í fyrri hálfleik vegna meiðsla og það hafði mikil áhrif á þeirra leik.

„Mér fannst þangað til Remy meiðist við vera að ná yfirhöndinni á þessu og fannst eins og við værum að fara að sigla þessu auðveldlega heim. Með því að missa hann út þá breytist einvígið auðvitað ansi mikið,“en bera þurfti Martin af velli og óljóst hversu alvarleg meiðslin eru.

„Þetta er bara hluti af leiknum og við erum með ágætis leikmenn, þó Remy sé okkar besti maður, þá eru alveg ágætis leikmenn inn á milli hjá okkur. Við þurfum bara að finna leiðir til að bæta okkar leik án hans núna í sókn og vörn til að eiga möguleika á að vinna þetta.“

Grindvíkingar tóku nokkur mikilvæg sóknarfráköst í leiknum sem skiluðu þeim stigum. Pétur sagði þetta eitthvað sem Keflvíkingar þyrftu að vinna betur með.

„Það er bara hluti af leiknum sem við erum að vinna með, að fækka sóknarfráköstum hjá þeim. Þeir eru mjög grimmir í þeim og eru sterkir sóknarfrákastarar. Það er auðvelt að segja þetta en erfitt að gera þetta.“

Pétur vildi ekkert tjá sig um brottrekstur DeAndre Kane leikmann Grindavíkur.

„Það er annar hluti af leiknum. Hann stjórnar bara því sem hann gerir. Við stjórnum því ekki og erum ekki að skipta okkur af því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×