Düsseldorf og Kiel voru í harðri baráttu á toppi þýsku B-deildarinnar, ásamt St. Pauli sem situr í öðru sæti. Fyrir leik kvöldsins sat Kiel á toppnum með 64 stig, St. Pauli var með 63 stig og Düsseldorf með 59 þegar tvær umferðir voru eftir.
Tvö lið fara beint upp um deild, en þriðja sætið þarf að fara í gegnum umspil. Það var því ljóst að tap í kvöld myndi þýða að Ísak og félagar ættu ekki lengur möguleika á því að fara beint upp.
Ísak hóf leik á varamannabekk Düsseldorf í kvöld, en Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Holstein Kiel. Heimamenn í Kiel tóku forystuna strax á annarri mínútu áður en gestirnir jöfnuðu metin úr vítaspyrnu á 70. mínútu, stuttu áður en Ísak kom inn af bekknum.
Reyndust það einu mörk leiksins og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli. Holstein Kiel trónir því enn á toppi deildarinnar, nú með 65 stig þegar liðið á einn leik eftir, og er öruggt um sæti í efstu deild. Düsseldorf situr hins vegar enn í þriðja sæti, nú með 60 stig, þremur stigum á eftir St. Pauli sem á leik til góða.