Frá þessu segir í tilkynningu. Þar segir að árið 2011 hafi Turner-samsteypan keypt LazyTown og sett þá inn pöntun fyrir tuttugu og sex nýja sjónvarpsþætti. Framleiðslan kostaði á þeim tíma yfir 25 milljónir dollara.
„Framleiðsla nýju þáttanna var unnin í Studio Lazytown í Garðabænum, líkt og allir sjónvarpsþættir Lazytown, þar á undan. Við það jókst eignasafn Lazytown í 97 hálftíma sjónvarpsþætti fyrir börn og voru á þessum tíma sýndir í 170 löndum og náðu til 500 milljónir heimila.
LazyTown er enn í dag eitt þekkasta vörumerki Íslands og var gríðarlega vinsælt í sjónvarpi úti um allan heim. Þættirnir slógu áhorfsmet í Bandaríkjunum, Þýskalandi, á Englandi og Spáni og víðsvegar í Suður Ameríku og Ástralíu. Einnig unnu þeir til fjölda verðlauna og hlutu meðal annars hin virtu BAFTA sjónvarpsverðlaun.
LazyTown er 30 ára á þessu ári og verður haldið upp á tímamótin en vörumerkið var mikil lyftistöng fyrir íslenskan sjónvarps- og kvikmyndaiðnað á sínum tíma. Skapaði það hundruði starfa í þau 26 ár sem fyrirtækið starfaði hér á landi,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Magnúsi að það sé mikill heiður að tryggja kaupin á LazyTown og ljúft fyrir sig að ná „barninu sínu“ aftur heim.
„Ekki síður er mikið gleðiefni að geta lagt sitt af mörkum til að stuðla að bættri heilsu barna enn á ný um heim allan. Þau börn sem ólust upp við að horfa á LazyTown eru núna að verða foreldrar og þekkja hvað LazyTown stendur fyrir og í því liggja mikil tækifæri.“