Meðal þeirra sem hafa stigið fram í breskum miðlum og tjáð þessa skoðun sína eru Sharon Stone, Liam Neeson og Stephen Fry. Leikarinn var í fyrra sýknaður í máli fjögurra breskra manna sem sögðu hann hafa brotið á þeim á barnsaldri. Hann hefur einnig verið sýknaður í máli leikarans Anthony Rapp sem sakaði hann um að hafa brotið á sér á barnsaldri.
Í bígerð er heimildarmynd um meint kynferðisofbeldi leikarans, sem framleidd er af Channel 4. Þar eru ýmsir menn sagðir munu stíga fram og lýsa brotum leikarans. Sjálfur hefur Spacey sagst hvergi banginn.
Segja leikarann þegar hafa sætt afleiðingum
„Ég get ekki beðið eftir því að sjá Kevin Spacey mæta aftur til starfa. Hann er snillingur. Hann er svo glæsilegur og skemmtilegur, örlátur og veit meira um þennan bransa en flest okkar munu nokkurn tímann gera,“ segir Sharon Stone meðal annars í breskum miðlum.
Liam Neeson tekur í svipaðan streng, að því er segir í umfjöllun Sky fréttastofu. „Kevin er góður maður og mikill karakter. Persónulega finnst mér bransinn þurfa á honum að halda og hans er sárt saknað.“
Stephen Fry segir Spacey bæði hafa verið klaufalegan og óviðeigandi við mörg tilefni. Hann segir það þó ekki réttlæta að ráðast í gerð heillar heimildarmyndar um ásakanir sem hann hafi ekki verið kærður fyrir. Myndin muni byggja á orðum en ekki sönnunargögnum. „Nema eitthvað hafi farið framhjá mér þá finnst mér hann þegar hafa sætt afleiðingum.“
Áður en mennirnir stigu fram var Kevin Spacey á mála hjá Netflix streymisveitunni þar sem hann fór með aðalhlutverkið í dramaþáttunum House of Cards sem Frank Underwood. Þá stóð til að hann myndi leika í nokkrum bíómyndum en honum var kippt út fyrir aðra leikara eftir að ásakanirnar bárust.
Síðan hefur ekki sést tangur né tetur af leikaranum á skjánum, utan skringilegra Youtube myndbanda. Þar virðist tjá sig um mál sín en ýjar þó að því að hann sé þar að fara með hlutverk Frank Underwood, persónu sinnar úr House of Cards.