Keppnin var haldin við höfuðstöðvar Brims á Granda í tilefni af því að Sjómannadagurinn er um helgina. Frambjóðendurnir voru misundirbúnir fyrir leika, flestir höfðu aldrei flakað fisk á ævinni líkt og var eitt af verkefnunum.
„Ég ætla bara að gera mitt besta í þessu eins og öllu öðru. Ég hef unnið í fiski en flökunarvélin sá um fyrsta hlutann af verkinu,“ sagði Halla Tómasdóttir áður en keppnin hófst.

„Ég vildi helst óska þess að ég væri frekar með lambalæri fyrir framan mig og ég fengi það verkefni að úrbeina lærið,“ sagði sveitastrákurinn Baldur Þórhallsson.
„Ég vona að það verði hægt að borða hann á eftir, eftir aðfarirnar,“ sagði Steinunn Ólína.
Sigurvegarinn úr Eyjum
Flökunin gekk vel og skiluðu allir keppendur frá sér flaki sem flökunarmeistarinn gaf einkunn.
Og þegar frambjóðendurnir voru búnir að flaka fiskinn var kominn að því að hnýta pelastikk. Eftir að hafa svarað nokkrum spurningum og hnýtt einn hnút var komið að því að krýna sigurvegara, sem í þetta sinn var Arnar Þór Jónsson.
„Mig dreymir um það að komast í einhverja verklega vinnu núna, eftir þessa þeytivindu kosningabaráttunnar. Fá að vinna með höndunum í nokkra mánuði. Það væri draumur,“ sagði Arnar Þór eftir sigurinn.

Guðmundur í Brim var ánægður með frammistöðu keppenda.
„Mér fannst þau öll standa sig vel og maður þorir ekki að gera upp á milli þeirra. Maður sá að það voru efnilegir handflakarar þarna,“ sagði Guðmundur.
Gætu fengið vinnu hjá Brim
Þú myndir kannski ráða einhverja þeirra í vinnu ef þeir komast ekki inn á Bessastaði?
„Já, ég hugsa að þeir myndu sóma sig vel hérna. Það væri gott fyrir okkur.“

Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs Reykjavíkur, tók í sama streng.
„Handflökun er frekar snúin list að tileinka sér. Ég er afleitur handflakari til að mynda en það kom mér á óvart að þetta vafðist ekki fyrir einum einasta frambjóðanda og þeir voru mjög sterkir í þessum þrautum,“ sagði Aríel.