Fótbolti

Spalletti skammaði sína menn eftir dramatíkina gegn Króatíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luciano Spalletti á hliðarlínunni í leiknum gegn Króatíu.
Luciano Spalletti á hliðarlínunni í leiknum gegn Króatíu. getty/Masashi Hara

Þrátt fyrir að Ítalir hafi bjargað stigi gegn Króötum og þar með tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópumótsins skammaði Luciano Spalletti, þjálfari ítalska liðsins, sína menn eftir leikinn í gær.

Þegar átta mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í leiknum í Leipzig í gær skoraði Mattia Zaccagni jöfnunarmark Ítalíu með frábæru skoti. Ítalir tryggðu sér þar með 2. sætið í B-riðli og sæti í sextán liða úrslitum EM þar sem þeir mæta Svisslendingum.

Spalletti var þó langt frá því að vera sáttur við liðið sitt eftir leikinn og fannst það ekki hafa sýnt sínar réttu hliðar.

„Við vorum langt frá því að vera skynsamir. Ef við eigum í vandræðum með að spila út frá vörninni með einföldum sendingum verðum við í vandræðum sama hvaða uppstillingu og leikkerfi við notum,“ sagði Spalletti.

„Í fyrri hálfleik töpuðum við boltanum á hátt sem við höfum ekki efni á að gera. Það var ekki skynsamt. Ef við spilum ekki vel, ef við framkvæmum bara grunnatriðin og ekkert meira lendum við í vandræðum. Þetta snerist ekki um leikkerfið. Við vorum of hikandi í fyrri hálfleik. Kerfið skipti ekki máli miðað við viðhorfið og gæðin sem við sýndum.“

Ítalir urðu Evrópumeistarar fyrir þremur árum en mistókst svo að komast á HM í Katar. Á ýmsu gekk í undankeppni EM en þeir tryggðu sér samt sæti á mótinu í Þýskalandi og eru enn með þar, þrátt fyrir allt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×