Lífið

Biden móment hjá Nick Cave í Eld­borg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Cave er 189 sentímetrar á hæð en virkar eins og tveir metrar þegar hann teygir úr sér með tilþrifum á sviðinu.
Cave er 189 sentímetrar á hæð en virkar eins og tveir metrar þegar hann teygir úr sér með tilþrifum á sviðinu. Mummi Lú

„Er einhver með lausa miða á Nick Cave?“ Svona færslur hafa vart farið fram hjá Facebook-notendum undanfarna daga. Vinsældir Ástralans hafa verið miklar á Íslandi undanfarna áratugi enda seldist upp á þrenna tónleika í Eldborg á nokkrum mínútum.

Cave er þekktastur fyrir samstarfið við hljómsveitina Bad Seeds og hefur sótt land og þjóð nokkrum sinnum heim síðan hann kom fram á Roxzý í Skúlagötu árið 1986. Þá var Cave á kafi í dópinu og á höttunum eftir heróíni sem var að sögn vandfundið á Íslandi. Segir sagan að brotist hafi verið inn í skip til að redda honum morfíni, sárabót fyrir heróínskortinn.


Ertu á leiðinni á tónleikana í kvöld? Ertu með fyrirpartý? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is. Okkur langar að hitta á ykkur.


Þá muna margir eftir því þegar hann slasaðist nokkuð við fall af sviðinu á All tomorrows parties tónlistarhátíðinni í flugskýli í Reykjanesbæ. Hann braut fjóra hryggjarliði. Samviskubitið nagaði framkvæmdastjóra hátíðarinnar í mörg ár á eftir.

Nú var ekkert heróín, engin þörf á því, og enginn datt af sviðinu. Kvöldið gekk áfallalaust fyrir sig. 

Sjósund með Nínu Dögg

Sá Cave sem settist við Steinway flygilinn í Eldborg um korter yfir átta í gærkvöldi hefur fyrir margt löngu sagt skilið við fíkniefnadjöfulinn. Hann sækir í annað, til dæmis sjósund, og naut liðsinnis Nínu Daggar Filippusdóttur leikkonu úti á Gróttu í gær. Nína Dögg og Vesturportsgengið hefur unnið nokkrum sinnum með Cave undanfarna tvo áratugi. 

Susie Cave, eiginkona tónlistarmannsins, birti mynd af buslinu á Instagram-reikningi sínum og upplýsti að Nína hefði tekið myndina.

Susie var einmitt baksviðs í Hörpu í gær. Cave talaði oftar en einu sinni til eiginkonu sinnar á meðan tónleikunum stóð.

Með Cave á sviðinu var bassaleikarinn Colin Greenwood. Úr lítt þekktri indie hljómsveit sem heitir Radiohead, eins og Cave komst að orði. Kaldhæðni Ástralans hitti vel í mark hjá tónleikagestum enda Íslendingar þekktir fyrir kaldhæðinn húmor sinn.

Engar fróunarspurningar

Greenwood er algjör stjarna enda meðlimur einnar áhrifamestu hljómsveitar síðari tíma. Félagarnir tveir voru ekkert eðlilega töff á sviðinu. Cave við flygilinn en stóð reglulega upp í eins konar Saturday night fever stellingu, með höndina út í loftið, og kallaði til áhorfenda: „Halló Reykjavík!“

Það var samt engin sögustund í Eldborg í gær eins og stundum er tilfellið á tónleikum Cave. Hann fékk sérstaka spurningu frá Katrínu Oddsdóttur lögmanni í Hörpu fyrir fimm árum þegar Cave bauð til spurt og svarað með tónleikagestum.  

Núna var fókusinn allur á flutninginn. Að loknu hverju lagi henti hann einu A4 blaði á gólfið. Svo var talið í næsta lag.

Það vantaði ekkert upp á lagafjöldann. Cave og Greenwood fluttu hvert lagið á fætur öðru. Stundum áréttaði Cave við Greenwood í hvaða tóntegund næsta lag væri og spurði hvort hann kynni lagið. Alltaf jánkaði Greenwood þótt stundum hafi mátt velta fyrir sér hversu vel Greenwood kynni lagið því bassaleikarinn virtist stundum elta Cave frekar en að spila í takt. En það gæti líka skrifast á kúnstpásur Cave sem flytur tónlist sína af mikilli tilfinningu.

Fara í ræturnar og skoða kjarnann

Telja má líklegt að aðeins allra hörðustu aðdáendur Cave hafi þekkt öll lög kvöldsins. Hann útskýrði tilurð laga sinna og hvernig Bad Seeds hefðu komið með alla sína snilld og gert eitthvað stórkostlegt úr mörgum þeirra.

„En stundum týnist eitthvað í ferlinu. Núna gefst tækifæri til að fara í ræturnar og finna hvað er í kjarnanum.“

Þegar hann spilaði The Ship song sagði hann að því miður, af öllum þeim 250 lögum sem hann hefði samið, þá væri þetta smellurinn hans. Í framhaldinu flutti hann annan smell Into my arms og kunnu gestir vel að meta tvo hittara í bland við óþekktari lög Ástralans.

Hann söng Nobody's baby now til Susie konunnar sinnar og í framhaldinu O Children sem margir þekkja úr kvikmyndinni Harry Potter & The Deathly Hallows. Allt sungið af innlifun og með tilþrifum. Hljómurinn í Steinway flyglinum stórkostlegur og magnað að fylgjast með svo færum píanista leika listir sínar og syngja undir með barritónrödd sinni.

Lognið á undan storminum.Mummi Lú

Það bar á því kallað var eftir óskalögum úr sal. „Stagger Lee“ kallaði einn framarlega í salnum en Cave hristi hausinn.

„Nei. En ég get spilað önnur lög. Heyrðu, þetta er tileinkað þér. Þú munt ekki kunna að meta það,“ svaraði Cave og uppskar hlátur úr salnum.

Í annað skipti kallaði Cave eftir óskalögum, að loknu uppklappi. „Sad waters“ kallaði kona á fremsta bekk og Cave tók ekki illa í beiðnina. Ísabella frá Lissabon hét tónleikagesturinn og skiptust þau á nokkrum orðum.

Cave sagði tónleikagestum að þeir mættu syngja með í Into my arms, bara ekki of hátt...og bara í viðlaginu.Mummi Lú

Svo taldi Cave í, sagði konunni að lagið væri fyrir hana og ætlaði að bæta við nafninu:

„Heyrðu, ég man ekki lengur hvað þú heitir. Ég er að upplifa Biden móment,“ sagði Cave og salurinn skellti upp úr. Cave að vísa til minnisleysis Joe Biden Bandaríkjaforseta sem stendur í stórræðum í aðdraganda kosninganna í nóvember.

„Með því að halda kjafti!“

Tónleikarnir voru í á þriðju klukkustund með tveimur uppklöppum. Þegar Cave tilkynnti fyrst að komið væri að síðasta lagi kvöldsins heyrðust vonbrigðaóp úr salnum. Hann var fljótur að útskýra fyrir fólki að hafa ekki áhyggjur. Í hönd færi atriði þar sem áhorfendur myndu klappa, þeir færu af sviðinu í tuttugu sekúndur og svo yrðu spiluð fleiri lög.

Cave og Greenwood saman á sviðinu.Mummi Lú

„Það eru fleiri hljómsveitir sem gera þetta. En það var ég sem byrjaði á þessu,“ sagði Cave hæðinn og enn hló salurinn.

Hann fékk gesti á svölum Eldborgar til að taka vel undir í Balcony man og tilkynnti fyrir næsta lag að fólkið á gólfinu léki lykilhlutverk í næsta lagi.

„Með því að halda kjafti!“

Eftirvæntingin var mikil í Eldborg á meðan þess var beðið að Cave stigi á svið.Mummi Lú

Fólk fékk að syngja með viðlaginu í Into my arms. „En ekki of hátt“. Hlýðnir Íslendingar gegndu fyndnum leiðbeiningum Cave til hins ítrasta. Það var enginn uppreisnarseggur í Hörpu þetta kvöld.

Eftirminnileg kvöldstund

Kvöldstundin í Eldborg var í einu orði sagt æðisleg. Einhverjir höfðu á orði að tónleikarnir hefðu verið í það lengsta en líklegra er að massinn hafi kunna að meta hvert einasta lag.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttalögmaður var að sjálfsögðu á svæðinu og kíkti baksviðs til Cave. Óttar Pálsson og Erpur Eyvindarson voru með í för. Þeir félagar hittu einnig fyrir Benedikt Gíslason, bankastjóra Arion banka.Mummi Lú

Greenwood bassaleikari virkaði eins og aðdáandi Cave á sviðinu, var á tíðum eins og spenntur strákur á sviði með átrúnaðargoði sínu. Varirnar hreyfðust með söng Cave og naut þess að hafa fjölskyldu sína með í salnum.

Líklegt má telja að Greenwood nýti dagana á Íslandi til að sjá helstu náttúruundur á meðan fastagesturinn Cave tekur því líklega rólega. Mögulega í sjósundi á köldu íslensku sumri.

Víst er að miðahafar á tónleikana í kvöld og annað kvöld eiga von á æðislegri kvöldstund.


Tengdar fréttir

Uppselt í þriðja sinn á augabragði

Uppselt er á þrenna tónleika Nick Cave í Eldborgarsal Hörpu hér á landi. Miðasala á tvo aukatónleika fór fram í morgun. Ekki verður bætt við tónleikum.

Nick Cave missir annan son

Ástralska fyrirsætan Jethro Lazenby er látinn þrjátíu og eins árs að aldri. Hann hafði nýlega losnað úr fangelsi eftir að hafa setið inni fyrir ofbeldisbrot gegn móður sinni, Beau Lazenby. Dánarorsök liggur ekki fyrir að svo stöddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×