Sædís var á sínum stað í byrjunarliði Vålerenga og Íris Ómarsdóttir hóf leik í liði Stabæk.
Það var hins vegar Sædís sem hafði betur í Íslendingaslagnum og hún lagði upp fyrstu tvö mörk gestanna, en það reyndust einu mörk fyrri hálfleiksins.
Vålerenga gekk svo á lagið í síðari hálfleik og skoraði þrjú mörk á fyrstu tíu mínútunum eftir hlé áður en sjötta markið leit dagsins ljós þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka.
Heimakonur klóruðu í bakkann með tveimur mörkum á síðasta stundarfjórðungi leiksins og þar við sat. Niðurstaðan öruggur 6-2 sigur Vålerenga sem trónir á toppi norsku deildarinnar með 42 stig eftir 16 leiki, en Stabæk situr í sjötta sæti með 20 stig.