Fótbolti

Ásta Eir: Ég er alla­vegana ekkert að pæla í því

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Ásta Eir Árnadóttir og stöllur unnu öruggan sigur í kvöld.
Ásta Eir Árnadóttir og stöllur unnu öruggan sigur í kvöld. Vísir/Vilhelm

„Ég er bara mjög ánægð með okkur,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, eftir öruggan 0-4 sigur á FH í Kaplakrika í Bestu deild kvenna.

„Mér fannst hún eiginlega bara frábær. Mér fannst við kannski svolítið lengi af stað í fyrri hálfleik, en svo var gott að ná inn markinu um miðjan fyrri hálfleikinn og mér fannst við eiginlega mjög góðar í seinni hálfleik. Eftir þessa leikjatörn þá var þetta besti hálfleikurinn sem við höfum spilað af þessum síðustu sex leikjum á tveimur vikum,“ sagði Ásta Eir aðspurð út í frammistöðu liðsins í kvöld.

FH-ingar spiluðu vel í fyrri hálfleik. Ásta Eir segist sér hafa þó alltaf liðið þannig að hennar lið næði inn fyrsta marki leiksins.

„Mér leið allavega þannig. Mér fannst við líka vera að takast vel á við það sem þær voru að reyna að gera. Þær voru að reyna að overload-afram á við og mikið í löngum boltum og mér fannst við leysa það bara mjög vel, sérstaklega þegar leið á leikinn.“

Breiðablik hefur aðeins fengið fjögur mörk á sig í Bestu deildinni í sumar og haldið níu sinnum hreinu. Hvað veldur að liðinu gengur svona vel að verjast sóknum andstæðinganna?

„Ef maður er bara með sjálfstraust, og við erum allar með gott sjálfstraust inn á vellinum. Því fleiri leikir em þú spilar og færð ekki á þig mörg mörk, þá einhvern veginn eykst bara sjálfstraustið. Ég er allavegana ekkert að pæla í því að við séum að fara að fá á okkur mark, það er enginn að pæla í því. Frekar erum við að spá í að skora hinu megin sko. Bara hrós á alla í liðinu í dag með mjög góða vinnslu og varnarleik,“ sagði Ásta Eir.

Kaplakrikavöllur hefur verið einn umtalaðasti völlur landsins upp á síðkastið og þá aðallega vegna þeirra skiptu skoðana um ástand hans. Ásta Eir hrósaði vellinum, þegar hún var aðspurð.

„Ég ætla bara að nýta tækifærið og hrósa vellinum. Hann var bara mjög góður fannst mér. Auðvitað skoppar boltinn stundum skringilega, eins og sást kannski á sumum augnablikum, en af þessum grasvöllum sem við höfum verið að spila á undanfarið þá er þessi bara mjög góður. Ég skil ekkert hvað fólk er eitthvað að væla,“ sagði Ásta Eir að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×