Fótbolti

Ólafur Ingi þjálfar 21 árs lands­liðið og Þór­hallur tekur við af honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason fór með nítján ára landsliðið í úrslitakeppni Evrópumótsins sumarið 2023.
Ólafur Ingi Skúlason fór með nítján ára landsliðið í úrslitakeppni Evrópumótsins sumarið 2023. Getty/Seb Daly

Knattspyrnusamband Íslands hefur fundið nýja þjálfara fyrir tvö yngri landsliðs karla í knattspyrnu. Þetta eru 19 ára landsliðið og 21 árs landsliðið.

Davíð Snorri Jónasson hættir sem þjálfari 21 árs landsliðsins en hann var ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla í vor.

Ólafur Ingi Skúlason hefur verið ráðinn þjálfari U21 landsliðs karla og tekur við starfinu af Davíð Snorra. Ólafur hættir um leið með nítján ára landsliðið. Þórhallur Siggeirsson hefur á sama tíma verið ráðinn þjálfari U19 landsliðs karla og tekur við því starfi af Ólafi Inga.

Ólafur Ingi, sem lýkur UEFA Pro þjálfaragráðu á haustmánuðum, var ráðinn þjálfari U19 ára landsliðs karla í janúar 2021. Hann náði eftirtektarverðum árangri sem þjálfari þess liðs og fór með liðið í úrslitakeppni EM 2023.

Ólafur Ingi mun einnig sinna starfi aðstoðarþjálfara í U16/U17 ára landsliðum Íslands. Lúðvík Gunnarsson er þjálfari U16/17 liðanna en mun aðstoða Ólaf Inga í U21.

Þórhallur hefur verið aðstoðarþjálfari U21 liðs karla frá árinu 2021 og lætur nú af því starfi. Hann hefur jafnframt verið yfir Hæfileikamótun N1 og KSÍ frá árinu 2023 ásamt því að þjálfa U15 ára landslið karla frá því sama ári, og mun halda áfram að vinna með það verkefni ásamt nýjum aðila sem verður ráðinn síðar.

Þórhallur á að baki fjölbreyttan feril sem þjálfari frá árinu 1999 - verið yfirþjálfari, þjálfað yngri flokka, þjálfað mfl., þjálfað í Noregi og Indlandi svo dæmi séu tekin. Þórhallur klárar UEFA Pro þjálfaragráðu árið 2025 og er með meistaragráðu í íþróttafræðum frá HR.

Leit er hafin að nýjum þjálfara í U15 og Hæfileikamótun karla sem einnig mun sinna aðstoðarþjálfun í U19 karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×