„Við börðumst fram á síðustu mínútu mótsins,“ sagði Southgate í leikslok. „Við héldum boltanum ekki nægilega vel í kvöld. Við vörðumst vel, en þegar við vinnum boltann aftur þá þurfum við að koma okkur út úr pressunni og við náðum því ekki. Það þýddi að þeir höfðu betri stjórn á leiknum og það hefur áhrif á okkar lið.“
„En þrátt fyrir það náðum við að jafna og þá var þetta galopið. Við fengum alvöru færi í lokin og það er alltaf fín lína sem skilur á milli. Mér fannst þeir samt vera besta lið mótsins.“
Þrátt fyrir gott gengi enska liðsins undir stjórn Southgate hafa margir velt því fyrir sér hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir þjálfarann. Hann segist þó ekki ætla að taka ákvörðun um það strax.
„Ég held að þetta sé ekki góður tími til að taka slíka ákvörðun. Ég þarf að tala við rétta fólkið. Þetta er ekki ákvörðun sem ég tek í kvöld.“
Hann segir liðið þó vera á góðum stað.
„Enska landsliðið er á mjög góðum stað þegar við horfum í þá reynslu sem leikmennirnir hafa. Flestir af þeim sem eru í liðinu verða ennþá hérna á næsta HM og næsta EM. Það er mikið sem við getum látið okkur hlakka til, en á svona stundum er það engin huggun,“ sagði Southgate að lokum.