Þetta kemur fram í yfirlýsingu enska knattspyrnusambandsins (FA) sem forsetinn Mark Bullingham kvittaði undir. Samkvæmt heimildum eru fjölmargir sem koma til greina en óvíst er auðvitað hvort áhuginn sé gagnkvæmur. Sambandið er því með bráðabirgðalausn, einhvern sem er tilbúinn að taka við starfinu strax.
Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér en þar kemur meðal annars fram að horft sé til baka á tíma Southgate af miklu stolti, hann hafi rifið enska landsliðið upp á hærra plan og náð betri árangri en nokkur maður hefur gert síðan Sir Alf Ramsey stýrði því til sigurs á HM 1966.
Fyrir tíma Southgate hafði England lengst verið sjö mánuði samfleytt í efstu fimm sætum heimslistans en þeir hafa nú verið þar samfleytt í sex ár undir hans stjórn.
„Ferlið við að finna eftirmann er þegar hafið og við stefnum á að tilkynna nýjan landsliðsþjálfara sem fyrst. Þjóðadeildin hefst í september og við erum með bráðabirgðalausn ef þess þarf. Við vitum að það verður spáð mikið og spekúlerað, en við munum ekki tjá okkur frekar um málið fyrr en eftirmaður hefur verið fundinn og kynntur til starfa,“ sagði Mark Bullingham að lokum í yfirlýsingu enska knattspyrnusambandsins.