Fótbolti

Luka Modric fram­lengir samning sinn við Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Modric vann Meistaradeildina í sjötta sinn með Real Madrid í vor.
Luka Modric vann Meistaradeildina í sjötta sinn með Real Madrid í vor. Getty/Diego Souto

Króatíski miðjumaðurinn Luka Modric spilar eitt tímabil í viðbót með Real Madrid en hann hefur framlengt samning sinn við spænska félagið.

Modric vann Meistaradeildina í sjötta sinn með Real Madrid í vor. Þar hefur hann spilað síðan að hann kom þangað frá Tottenham til 2012.

Á tólf árum sínum í spænsku höfuðborginni þá hefur þessi 38 ára gamli miðjumaður orðin fjórum sinnum spænskur meistari og unnið alls 26 titla með félaginu.

Modric er nýkominn heim af Evrópumótinu með króatíska landsliðinu en liðið datt þá út í riðlakeppninni. Nýr samningur hans við Real Madrid nær til júní 2025.

Modric var ekki fastamaður á miðju Real Madrid á síðustu leiktíð en kom oft inn á sem varamaður fyrir Toni Kroos. Kroos ákvað að leggja skóna á hilluna eftir Evrópumótið.

Það verður fróðlegt að sjá hvert hlutverk Modric verður á komandi tímabili en Real Madrid er með mikla breidd í miðju- og sóknarmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×