Áætlað er að myndin komi í kvikmyndahús í desember næstkomandi.
Í stiklunni sést Chalamet syngja A Hard Rain's a-Gonna Fall sem Bob Dylan tók upp árið 1962 en lagið kom út á plötunni The Freewheelin' Bob Dylan ári seinna.
Monica Barbaro og Edward Nortun munu fara með hlutverk þjóðlagagoðsagnanna Joan Baez og Pete Seeger.
Í viðtali við Rolling Stone segist leikstjóri myndarinnar, James Mangold, hafa sannfært sjálfan Dylan um gerð myndarinnar með því að útskýra söguþráð hennar á þessa leið: „Hún er um gæja sem er að kafna til dauða í Minnesótaríki. Hann skilur alla vini sína og fjölskyldu sína eftir og enduruppgötvar sjáldan sig á glænýjum stað, eignast vini og nýja fjölskyldu, nær gríðarlegum árangri, og byrjar svo að kafna til dauða aftur. Og þá hleypur hann í burtu.“
Dylan á að hafa brosað og sagt „Mér líkar þetta.“
A Complete Unknown verður ekki fyrsta kvikmyndin um Dylan sem ratar á hvíta tjaldið. Í I'm Not There frá árinu 2007 settu nokkrir stórleikarar sig í mismunandi hlutverk sem öll byggðu á Bob Dylan með einum eða öðrum hætti, en þar má nefna Cate Blanchett, Christian Bale, Richard Gere og Heath Ledger.
Þá hafa þónokkrar heimildarmyndir verið gerðar um kappann. Dont Look Back er líklega frægust, en vert er að minnast á tvær heimildarmyndir sem Martin Scorsese hefur gert um Dylan: No Direction Home og Rolling Thunder Revue.