Norska liðið leiddi með tveimur mörkum, 17-15, þegar að liðin gengu inn til búningsherbergja í hálfleik í gær. Mest komst liðið svo í fjögurra marka forystu þegar að lið á seinni hálfleikinn en þegar að um tuttugu mínútur eftir lifðu að leiknum tóku hlutirnir stefnu til hins verra.
Sænska liðið, sem vel að merkja er enginn aukvisi þegar kemur að kvennahandboltanum og býr yfir sterku landsliði, gekk á lagið. Náði að brúa bilið og að lokum tryggja sér fjögurra marka sigur, 32-28. Frábær byrjun fyrir Svíana.
Tapið virðist hafa komið sem algjört sjokk fyrir norsku þjóðina og kjarnast það kannski einna helst í fréttaflutningi norsku miðlanna af leiknum.
„Martraðarbyrjun fyrir Noreg: Hrun og krísa eftir tap,“ er fyrirsögnin á frétt VG í Noregi um leikinn en um er að ræða fyrsta sigur Svíþjóðar á norska kvennalandsliðinu í handbolta í um sex ár.
TV2 segir leikinn hafa verið „Norskt fíaskó.“ Og fer þar sérfræðingur miðilsins, Bent Svele yfir stöðuna og frammistöðu norska landsliðsins. Liðið hafi gert mistök sem norska landsliðið eigi ekki að gera.
Dagbladet segir niðurstöðuna vera „handbolta sjokk“ og sérfræðingur miðilsins, Ole Gustav Gjekstad, segir norska liðið þarna hafa upplifað sjaldgæft hrun í leik sínum.
Enn er nóg af leikjum eftir og tækifæri til staðar fyrir Þóri og hans leikmenn í norska liðinu og slá frá sér. Enginn skyldi útiloka Evrópumeistaranna í baráttunni um Ólympíugullið.
Norska landsliðið, sem er í riðli með Danmörku, Svíþjóð, Suður-Kóreu, Þýskalandi og Slóveníu, mætir Danmörku í næsta leik sínum á Ólympíuleikunum á sunnudaginn kemur. Fjögur efstu lið riðilsins komast áfram í útsláttarkeppnina.