„Þrjóturinn hún systir mín hefur nú deilt sinni reynslu af fjölskyldufríi stórfjölskyldunnar, eitthvað sem ég taldi að yrði afslappandi og rólegt sumarfrí. Annað kom á daginn.“
Í stað þess hafi hann óaðvitandi tekið þátt í framleiðslu raunveruleikasjónvarps án þess að veita fyrir því tilskilin leyfi. Vísar hann þar til fjölda vinsælla myndskeiða sem Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, leikkona og tónlistarkona deildi með fylgjendum sínum.
Í myndböndunum sem hafa náð mikilli útbreiðslu á samfélagsmiðlunum Tiktok og Instagram tekur Þórdís fjölskyldumeðlimi sína fyrir og teiknar upp skýra mynd af meintum hegðunareinkennum þeirra.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa og kepptist fólk við að óska eftir því að fá frekari innsýn inn í ferðalag þessarar líflegu fjölskyldu. Dvöldu systkinin, foreldrar, makar og börn saman í húsi í Umbria-héraði á Ítalíu.
„Í myndböndum hennar mátti sjá fjölskylduna að mestu leyti í sínu rétta ljósi enda erum við allt annað en eðlilegur hópur. Rúmlega helmingurinn sennilega með einhverjar greiningar og hinn helmingurinn í afneitun,” skrifar Björn í Facebook-færslu en hann líkt og önnur viðfangsefni Þórdísar hlaut um leið nýtt viðurnefni.
Björn lýsir því hvernig hann hafi eftir heimkomu verið stöðvaður úti á skemmtanalífinu og í verslunarferðum af fólki sem vilji vita hvort væri um sé að ræða hinn nú víðfræga „ADHD-Bjössa.“
Eitt vinsælasta myndskeið Þórdísar sýnir Aðalheiði Bragadóttur, móður systkinanna gæða sér á hverjum áfenga drykknum á fætur öðrum í sólinni og klykkja út með frasanum: „Mikið rosalega verður maður kærulaus í þessum hita.“
Watch on TikTok
Móðir þeirra komin í felur
„Móðir mín var virtur skólastjórnandi fyrir ferðina en hefur við heimkomuna breyst í eina alræmdustu drykkjukonu landsins, Kæruleysiskellinguna,” segir Björn og tekur upp hanskann fyrir foreldra sína, bróður og mág sem fóru með aðalhlutverk í verkum Þórdísar.
Dugaði athyglin til þess að Aðalheiður varð til umfjöllunar í frétt Vísis sem Björn telur „sennilega kornið sem fyllti mælinn, kæruleysið vék fyrir vonleysinu. Fagur rautt aperólið vék fyrir biksvörtu romm í kók.”
„Móðir mín fer nú huldu höfði, fékk sýrlenskan innblástur og breytti nafninu sínu í Þóra Jóhannesdóttir og mun ekki snúa tilbaka fyrr en þessi martröð er yfirstaðin,” bætir hann skoplega við og vísar þar til frægrar nafnabreytingar Mohamad Kourani eftir að hann var sakfelldur.
Einn með pöddufælni og annar með fóbíu
Þórdís beindi sömuleiðis sjónum sínum að skordýraáhuga og hrekkjalómahegðun föður síns, flugufælni unnustans Júlí Heiðars Halldórssonar, spilaæsingi Björns og áfengisdrykkju bróður þeirra.
Hefur Björn áhyggjur einkum af mannorðsmissi „flugumannsins“ Júlí Heiðars „sem með einhverjum rosalegustu flóttatilburðum í sögu Ítalíuskagans náði að festa sig í sessi sem helsta kveif landsins.”
Notið aukinnar kvenhylli
Björn segir það ljós í myrkrinu að athyglinni virðist fylgja aukin kvenhylli þar sem systur hans hafi borist ítrekaðar fyrirspurnir um það hvort hann sé á lausu. Hann er þó vel giftur Kristínu Erlu Jóhannsdóttur sem hann segir hafa litlar áhyggjur af meintum auknum áhuga kvenpeningsins.
„Gott ef það örlaði ekki á smá létti og sennilega blundar í henni von um útgönguleið úr þessum aldarfjórðungsógöngum sem hún kom sér í.“
Björn segir að á meðan sumir fjölskyldumeðlimir megi muna fífil sinn fegri hafi Þórdís bætt við sig þúsundum fylgjenda á samfélagsmiðlum með útsendingum sínum. Óttast hann að hún skipuleggi nú aðra fjölskylduferð svo hún geti haldið áfram að níða af þeim skóinn.
Watch on TikTok
Biður foreldra sína afsökunar
Þórdís gerir ferðina og myndböndin einnig að umtalsefni í eigin færslu á Facebook-síðu sinni og biður foreldra sína afsökunar.
„Pöddupabbi, ADHD Bjössi, Kæruleysiskonan og Flugumaðurinn voru t.d. allt karakterar í þessum skrípaleik sem þessi Ítalíuferð var.
Mamma mín, sem fær sér örsjaldan vín, er allt í einu orðin talskona dagdrykkju í sólinni og á setningu sumarsins: “Maður verður svo kærulaus í þessum hita”. Pabbi minn, sem vill helst lifa í kyrrþey, er einhver annálaður hrekkjalómur og skordýraáhugamaður og er kominn með drullu gott fan base á samfélagsmiðlum. Sorry með það mamma og pabbi. En þetta er bara brota brot af því sem þessi ferð gaf af sér.“
Sjá má nokkur af umræddum myndskeiðum Þórdísar í Facebook-færslu hennar.