UEFA setti serbneska stuðningsmenn í eins leiks útivallarbann eftir rasíska söngva þeirra á Evrópumótinu í Þýskalandi í sumar. Það bann gilti í Kaupmannahöfn í kvöld.
Samkvæmt Ekstra Bladet reyndu hins vegar um 140 stuðningsmenn Serba að komast inn á völlinn, og nokkrum þeirra tókst það.
Flestum þeirra, eða 125 manns, var hins vegar vísað í burtu þegar þeir sýndu miðana sína til að komast inn. Við það fór hluti hópsins og keypti sér danskar landsliðstreyjur, í von um að komast á leikinn með því að virðast vera stuðningsmenn Danmerkur.
„En það var búið að skanna miðana þeirra svo þeir komust auðvitað ekki inn á Parken, jafnvel þó að þeir væru í dönskum landsliðstreyjum,“ sagði Jakob Höyer, fjölmiðlafulltrúi danska knattspyrnusambandsins.
Serbarnir höfðu þar með keypt sér miða og danska landsliðstreyju, til einskis. Flestir þeirra, það er að segja.
Nokkrir komust inn á leikvanginn
Um 10-15 Serbar sluppu inn á leikvanginn og náðu að láta serbneska fánann blakta, og kyrja söngva, áður en öryggisgæslan mætti og kom þeim í burtu.
Höyer kveðst vongóður um að með þessu hafi danska sambandið staðist kröfur UEFA varðandi bann Serba.
Þó að serbnesku stuðningsmennirnir fengju ekki að njóta leiksins þá voru 125 Serbar leyfðir í VIP-stúkunni á Parken. Um þá giltu önnur lögmál.
Danir voru mun betri í leiknum sjálfum og unnu þægilegan 2-0 sigur með mörkum frá Albert Grönbæk og Yussuf Poulsen, sem skoraði með glæsilegri hjólhestaspyrnu.