Fótbolti

Sex­tán ára frændur bættu met hjá Barca B

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frændurnir Toni Fernández og Guille Fernández eru báðir fæddir árið 2008 og báðir farnir að banka á dyrnar hjá aðalliði Barcelona.
Frændurnir Toni Fernández og Guille Fernández eru báðir fæddir árið 2008 og báðir farnir að banka á dyrnar hjá aðalliði Barcelona. Getty/ Eric Alonso

Toni Fernández og Guille Fernández eru ekki aðeins jafnaldrar og frændur því þeir eru báðir að skapa sér nafn innan raða Barcelona.

Strákarnir komu sér á spjöld sögunnar um helgina þegar þeir voru báðir á skotskónum með Barca Atletic sem er b-lið Barcelona og spilar í spænsku C-deildinni.

Barca B vann 3-0 sigur á Ourense og aðeins fjórar mínútur liðu á milli marka frændanna.

Toni, sá yngri af bræðrunum, var fljótari að skora og varð um leið yngsti markaskorari í sögu Barca B.

Toni var aðeins sextán ára, eins mánaða og 23 daga. Metið átti áður Bojan Krkic. Markið skoraði Toni með frábæru skoti þegar hann klippti boltann í teignum eftir þríhyrningaspil við liðsfélaga. Markið má sjá hér fyrir neðan.

Guille skoraði nokkrum mínútum síðar og varð um leið annar yngsti markaskorarinn í sögu félagsins. Hann var sextán ára, tveggja mánaða og 21 dags gamall þegar leikurinn fór fram. Toni átti auðvitað stoðsendinguna á frænda sinn.

Þeir eru báðir fæddir árið 2008 og hafa þegar náð athygli Hansi Flick, þjálfara a-liðs Barcelona.

Guille er sóknartengiliður og spilaði í öllum þremur undirbúningsleikjum Barcelona í sumar sem voru á móti Manchester City, Real Madrid og AC Milan. Toni er framherji og kom inn á sem varamaður í tveimur af þessum þremur leikjum.

Barcelona segir að hinir á topp fimm listanum yfir yngstu markaskorara sögunnar séu Bojan, Marc Bernal og Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×