Hún segir pólitíkina fasta í því að skoða tekjur fólks en það þurfi líka að miða aðgerðir við æviskeið fólks, hvort fólk sé með börn eða hvort það sé til dæmis að kaupa sína fyrstu íbúð. Þorbjörg ræddi þetta í Bítinu á Bylgjunni í morgun og í aðsendri grein í gær.
„Það er há útgjaldabyrði því lánin eru hátt hlutfall af heimilisbókhaldinu“ segir Þorbjörg og að auk þess geti verið mikill kostnaður sem fylgir börnum í leik- grunn- og framhaldsskóla. Auk þess sé fólk með námslán.
„En allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar núna hafa verið fyrst og fremst lágtekjumiðaðar. Í húsnæðisbótum, vaxtabótum og barnabótum,“ segir Þorbjörg Sigríður.
Þegar það hafi svo verið tilkynnt að fólk gæti ekki lengur nýtt sér úrræði um að leggja séreignarsparnað inn á húsnæðislán hafi henni verið allri lokið. Sigurður Ingi sagði í viðtali um málið í síðustu viku að hætta ætti með úrræðið því það nýttist ekki öllum tekjutíundum, það hefði frekar nýst þeim sem eru tekjuhærri. Fjölmargir hafa síðan þá gagnrýnt þessa ákvörðun.
Sterkefnað fólk lifi á fjármagnstekjum
„Fólki munar um þetta,“ segir Þorbjörg og að fólki muni sérstaklega um þetta núna þegar verðbólga er há og vextirnir háir.
Hún segir launajöfnuð meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Í samhengi við aðra sé jöfnuður mjög mikill og að þetta sé úrræði sem nýtist millistétt mjög vel. Fólki sem lifi á laununum sínum. Stóreignafólk og sterkefnað fólk lifi á fjármagnstekjum og greiði ekki af þeim í lífeyrissjóði.
Hún segir þetta úrræði miða við krónutölu og nýtist hlutfallslega verra eftir því sem launin eru hærri. Krónutalan hafi verið sú sama í tíu ár. Einstaklingur megi nýta allt að 500 þúsund af launum sinum á ári og hjón um 750 þúsund.
Þorbjörg segir þetta úrræði ekki hafa neina merkingu fyrir ríkissjóð eins og stendur. Það geti haft áhrif á skatttekjur til framtíðar en þetta sé ekki eina úrræði ríkisstjórnarinnar sem geri það. „Mér finnst þetta röng skilaboð til heimilanna þegar staðan er eins og hún er.“
Nýtist millistétt vel
Hún segir þingmenn Viðreisnar ekki vilja kippa þessu úrræði úr sambandi við þær efnahagsaðstæður sem eru núna. Það sé gott að styðja við úrræði fyrir lágtekjufólk en gögn sýni að þetta úrræði nýtist millistétt og það eigi að halda því áfram.
„Það er að verða hérna stöðnun um lífskjör og ef allar aðgerðir og atvinnustefna stjórnvalda miðar að því að búa til lágtekjustörf og styðja við það er það ekki vænleg framtíðarmúsík.“
Hvort þessi breyting nái í gegnum þingið segist hún bjartsýn á að það sé hægt að bakka með þessa ákvörðun. Það sé núningur innan ríkisstjórnar um þetta, eins og með önnur mál, en að samtalið sé að hefjast með tilliti til íslenskra vaxta og stöðu íslensku krónunnar.
„Mér finnst ríkið bera ábyrgð á því að fara í skaðaminnkandi aðgerðir. Þetta er eitt þeirra.“