Íslenski boltinn

Seinna spjaldið var ekki viljandi: „Er bara pirraður og missi hausinn“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elmar Kári skoraði annað mark Aftureldingar í leiknum og hefði hæglega getað bætt við. Hann verður í banni í næsta leik. 
Elmar Kári skoraði annað mark Aftureldingar í leiknum og hefði hæglega getað bætt við. Hann verður í banni í næsta leik.  afturelding

Furðulegt mál tók athyglina af frábærri frammistöðu Elmars Kára Enesson Gocic í 3-1 sigri Aftureldingar gegn Fjölni í fyrri umspilsleik liðanna í kvöld.

Elmar fékk gult spjald fyrir leikaraskap í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að hafa ekki beðið um brot sjálfur.

„Ósáttur með það? Hann bara sparkar í mig. Ég bara skil ekki hvað er í gangi, af hverju hann var að gefa mér gult. Þetta er mjög skrítið, ég skildi þetta ekki þannig að eðlilega var ég ósáttur við það. En hann er dómarinn og er að gera sitt besta, ég virði það,“ sagði Elmar um atvikið í viðtali eftir leik.

Spjaldið eitt og sér var mjög furðulegt en það sem vakti umtal og athygli var sú staðreynd að spjaldið hefði skilað Elmari leikbanni í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli – en ekki í næsta leik gegn Fjölni á mánudaginn.

Það er vegna þess að aganefnd KSÍ úrskurðar um leikbönn vegna uppsafnaðra gulra spjalda og hún kemur ekki saman fyrr en á þriðjudag, degi eftir leikinn gegn Fjölni. Aganefndin úrskurðar ekki leikbann þegar um er að ræða rautt spjald. 

Það biðu því allir áhorfendur eftir því að sjá hvort Elmar myndi næla sér í annað gult spjald, þar af leiðandi rautt og verða sjálfkrafa dæmdur í leikbann í næsta leik, frekar en að missa af úrslitaleiknum.

Eftir að lokaflautið gall gerði hann það, fékk annað gult fyrir eitthvað orðaskak við dómarann, og verður því í banni á mánudaginn. Hann var þá nýbúinn að klúðra víti sem hefði gefið Aftureldingu 4-1 forystu.

„Ég klúðraði víti, er bara pirraður og missi hausinn þarna. Það var ekkert flóknara en það,“ sagði Elmar um seinna spjaldið og spilaði sig grunlausan. 

Hann fullyrti að hann hafi ekki vitað um afleiðingar fyrra spjaldsins og seinna spjaldið hafi því ekki verið viljandi gert.

„Það gæti verið [að ég hafi verið meðvitaður um að ég væri á leið í bann í úrslitaleiknum] en það var bara ekki í hausnum á þeim tímapunkti og ég gerði mér ekki grein fyrir því,“ sagði Elmar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×