Enski boltinn

Ó­trú­leg og áður ó­séð töl­fræði: Tveir Arsenal-menn áttu enga sendingu

Sindri Sverrisson skrifar
Kai Havertz lék allan leikinn gegn Manchester City en átti þó enga sendingu á samherja.
Kai Havertz lék allan leikinn gegn Manchester City en átti þó enga sendingu á samherja. Getty/James Gill

Þeir Kai Havertz og Jurriën Timber áttu sinn þátt í 2-2 jafntefli Arsenal gegn Manchester City í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í gær. Hvorugur þeirra átti þó eina einustu sendingu á samherja.

Timber reyndi alls sex sendingar í leiknum en engin þeirra skilaði sér á samherja. Havertz reyndi fimm sendingar.

Um einsdæmi er að ræða í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, eða að minnsta kosti svo langt sem gagnasafn Opta tölfræðiveitunnar nær, frá tímabilinu 2003-04.

Þeir Havertz og Timber komu nefnilega ekki inn á sem varamenn heldur léku meira en 89 mínútur í leiknum. Timber var skipt af velli í uppbótartíma en Havertz kláraði leikinn.

Arsenal var í vörn allan seinni hálfleikinn eftir að Leandro Trossard fékk sitt annað gula spjald, og þar með rautt, í blálok fyrri hálfleiks fyrir að tefja að mati dómarans Michael Oliver.

Liðið var þá 2-1 yfir, þrátt fyrir að Timber og Havertz hefðu ekki átt eina sendingu á samherja. Þeir fengu svo fá tækifæri til að spila boltanum í seinni hálfleik þegar City var nánast allan tímann með boltann, en jöfnunarmark City kom þó ekki fyrr en á síðustu stundu þegar John Stones tókst að jafna metin.

Silva: Aðeins annað liðið vildi spila fótbolta

Bernardo Silva, miðjumaður City, var ekki hrifinn af leikstíl Arsenal og sagði eftir leik:

„Það var bara eitt lið sem kom til þess að spila fótbolta. Hitt liðið kom til þess að gera eins mikið og hægt væri með leyfi dómarans, því miður. Ég er ánægður með að við skulum alltaf fara á völlinn til þess að vinna hvern einasta leik,“ sagði Silva.

Arsenal var aðeins nokkrum sekúndum frá því að verða fyrsta gestaliðið til að fagna sigri á Etihad-leikvanginum síðan Brentford vann þar fyrir tæpum tveimur árum, í nóvember 2022.

„Það er kraftaverk að við höfum getað spilað svona í 56 mínútur á Etihad-vellinum, með tíu menn. Það sem við gerðum hérna er ótrúlegt,“ sagði Mikel Arteta stjóri Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×