Enski boltinn

Haaland ekki refsað

Sindri Sverrisson skrifar
Það virðist grunnt á því góða á milli þeirra Erling Haaland og Gabriels.
Það virðist grunnt á því góða á milli þeirra Erling Haaland og Gabriels. Getty/Michael Regan

Erling Haaland verður ekki refsað fyrir það að kasta boltanum viljandi í höfuð Gabriels eftir jöfnunarmark Manchester City gegn Arsenal í gær, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Á meðan að samherjar Haalands glöddust yfir markinu og vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Arsenal-mönnum, sem voru nokkrum sekúndum frá því að verða fyrsta liðið í tvö ár til að vinna City á útivelli, þá ákvað Norðmaðurinn að strá salti í sár Gabriels með því að kasta boltanum í höfuð hans.

Dómari leiksins, Michael Oliver, annað hvort sá ekki atvikið eða kaus að aðhafast ekkert vegna þess, en Haaland virðist ekki þurfa að kvíða því að brugðist verði við athæfi hans eftir á.

Sky Sports fullyrðir að Haaland muni ekki verða refsað, og segir að myndbandsdómari hafi metið atvikið á meðan á leik stóð og ekki talið nauðsynlegt að grípa inn í.

Haaland lét miðverði Arsenal finna vel fyrir sér í leiknum og hann skoraði þegar City komst yfir snemma leiks. Arsenal sneri stöðunni í 2-1 fyrir hálfleik en missti Leandro Trossard af velli með rautt spjald rétt fyrir hléið. Seinni hálfleikur var svo eign City en jöfnunarmarkið kom ekki fyrr en í blálokin þegar John Stones skoraði.

Alan Shearer kom Haaland til varnar í þættinum Match of the Day 2, og vildi ekki meina að hann ætti skilið refsingu fyrir að kasta boltanum í höfuð Gabriels.

„Mér fannst enginn skaði í þessu. Þetta var erfiður leikur fyrir dómarann en varðandi baráttuhug og einvígin úti á vellinum þá var þetta mjög spennandi leikur,“ sagði Shearer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×