Íslenski boltinn

Arnar sagður lík­legur til að taka við í Skot­landi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Gunnlaugsson hefur vakið athygli út fyrir landssteinana.
Arnar Gunnlaugsson hefur vakið athygli út fyrir landssteinana. vísir/Diego

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari ríkjandi Íslandsmeistara Víkings, er ofarlega á lista yfir þá sem veðbankar í Bretlandi telja líklega til að taka við Hearts í Skotlandi.

Steven Naismith, fyrrum leikmaður Everton á Englandi, var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá Hearts um helgina eftir 2-1 tap fyrir St. Mirren í skosku úrvalsdeildina. Hearts situr á botni skosku deildarinnar með aðeins eitt stig eftir sex umferðir.

Liðið er í stjóraleit og samkvæmt breskum veðbönkum er Arnar á lista yfir þá líklegri til að taka við þeim purpurarauðu í Edinborg.

Líkurnar á næsta stjóra Hearts samkvæmt SkyBet í Bretlandi.Skjáskot

Skotinn Alex Neil, sem stýrði Norwich um tíma í ensku úrvalsdeildinni, er efstur á lista veðbanka, Stephen Robinson, stjóri St. Mirren sem lagði Hearts um helgina, er annar en Arnar er svo þriðji.

Þriðjungslíkur eru taldar á því að Neil taki við, rétt rúmlega 30 prósent líkur eru settar við Robinson og 25 prósent líkur á því að Arnar taki við skoska liðinu. Þar fyrir neðan er Derek McInnes með 22,2 prósent líkur og John McGlynn með 20 prósent.

Hearts gerði vel á síðustu leiktíð og hafnaði í þriðja sæti skosku deildarinnar og er byrjun þessarar leiktíðar þeim mun meiri vonbrigði.

Arnar þekkir lítillega til í Skotlandi en hann lék með Dundee United fyrri hluta vetrar leiktíðina 2002 til 2003. Í mars 2003 samdi hann við KR ásamt bróður sínum Bjarka.

Talið er tímaspursmál hvenær Arnar fer erlendis að þjálfa en hann átti í viðræðum við sænska úrvalsdeildarfélagið Norrköping síðasta vetur. Þeim viðræðum var slitið og hélt hann kyrru fyrir í Fossvoginum.

Undir stjórn Arnars varð Víkingur Íslandsmeistari 2021 og í fyrra. Liðið vann þá bikarkeppnina fjögur skipti í röð, frá 2019 til 2023, en keppnin 2020 var lögð af vegna kórónuveirufaraldursins.

Víkingur tapaði um helgina bikarúrslitum í fyrsta sinn í fimm ár þegar KA vann 2-0 sigur í Laugardalnum. Liðið berst um Íslandsmeistaratitilinn við Breiðablik en liðin eru jöfn á toppi Bestu deildarinnar eftir 22 umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×