Fótbolti

Aron Einar snýr aftur til Katar

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Einar Gunnarsson lék með Al Arabi í Katar, við góðan orðstír.
Aron Einar Gunnarsson lék með Al Arabi í Katar, við góðan orðstír. Getty/Noushad Thekkayil

Aron Einar Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í fótbolta, er kominn með leikheimild í Katar og mun spila þar að nýju eftir að hafa síðast verið á mála hjá uppeldisfélagi sínu Þór á Akureyri.

Frá þessu er greint á Fótbolta.net og sjá má að á vef KSÍ er búið að skrá félagaskipti hans til Katar. Enn er hins vegar óljóst með hvaða liði Aron mun spila en samkvæmt frétt Fótbolta.net er um að ræða lið sem er í Meistaradeild Asíu og má þar tefla fram fleiri erlendum leikmönnum en í katörsku deildinni.

Aron, sem er 35 ára gamall, er öllum hnútum kunnugur í Katar eftir að hfaa spilað þar með Al-Arabi á árunum 2019-2024, við góðan orðstír. Í apríl tók hann þátt í því að vinna Ofurbikar Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmanna og var það þriðji titill hans með Al-Arabi, áður en hann kvaddi og samdi svo við Þór.

Lék sex leiki í endurkomunni í Þorpið

Aron kom við sögu í sex leikjum með Þór í sumar, átján árum eftir að hafa haldið á brott í atvinnumennsku, og hann skoraði eitt mark í Lengjudeildinni. Þórsarar höfnuðu þar í tíunda sæti en þó langt frá fallsæti.

Aron er einn leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 103 A-landsleiki, og alls 137 leiki í íslenska landsliðsbúningnum, en hann spilaði síðast landsleik í nóvember 2023, þegar Ísland mætti Slóvakíu ytra.

Åge Hareide landsliðsþjálfari sagði fyrir fyrstu leikina í Þjóðadeildinni í haust, fyrir mánuði síðan, að Aron kæmist ekki í landsliðið á meðan að hann væri leikmaður Þórs. Hann yrði að spila í sterkari deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×