Fótbolti

„Á­byrgðin er mín“

Sindri Sverrisson skrifar
Hansi Flick byrjaði frábærlega sem þjálfari Barcelona en nú hefur liðið mátt þola fyrsta tapið í spænsku deildinni á þessari leiktíð.
Hansi Flick byrjaði frábærlega sem þjálfari Barcelona en nú hefur liðið mátt þola fyrsta tapið í spænsku deildinni á þessari leiktíð. Getty/Juan Manuel Serrano

Þjóðverjinn Hansi Flick tók á sig alla sök eftir fyrsta tap Barcelona undir hans stjórn í spænsku 1. deildinni í fótbolta í gærkvöld.

Börsungar höfðu unnið fyrstu sjö deildarleiki sína á tímabilinu en steinlágu gegn Osasuna í gær, 4-2. Ljóst er að sú ákvörðun Flick að hefja leikinn með Lamine Yamal og Raphinha, sem byrjað hafa leiktíðina frábærlega, á bekknum, hafði sitt að segja.

„Maður verður að sætta sig við svona töp. Við spiluðum ekkert sérlega vel. Ábyrgðin er mín,“ sagði Flick við Movistar Plus eftir leik.

„[Með breytingum á liðinu] var ég að reyna að verja leikmennina, því þeir hafa verið að spila margar mínútur. En ég bjóst ekki við því að við myndum spila svona. Við gerðum mörg mistök og Osasuna gerði vel. Ég held samt að í öðru markinu hafi verið um brot að ræða í aðdragandanum, ég á þó eftir að sjá það aftur, en svo hef ég heyrt,“ sagði Flick.

„En það er of mikið að við séum að fá á okkur fjögur mörk. Ég hef sagt liðinu að við verðum bara að halda áfram. Það er mikið að gera og við erum á réttri braut,“ sagði Flick.

Barcelona tapaði einnig fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni, gegn Monaco fyrir tíu dögum, en hefur spilað þrjá deildarleiki síðan þá. Liðið tekur á móti Young Boys á þriðjudaginn í næsta leik í Meistaradeildinni og sækir svo Alaves heim í deildarleik, fyrir landsleikjahléið í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×