Fótbolti

Sagan enda­lausa hjá Åge: „Þetta er frekar sjokkerandi“

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Óskarsson átti mjög góðan leik í gærkvöld en stór mistök íslenska liðsins í fyrri hálfleik komu liðinu í erfiða stöðu.
Orri Óskarsson átti mjög góðan leik í gærkvöld en stór mistök íslenska liðsins í fyrri hálfleik komu liðinu í erfiða stöðu. vísir/Anton

Kára Árnasyni er sjálfsagt farið að líða eins og rispaðri plötu í gagnrýni sinni á íslenska landsliðið í fótbolta því hann segir vandamálið sífellt það sama; gríðarlegan mun á milli hálfleikja.

Kári og Lárus Orri Sigurðsson voru að vanda sérfræðingar Stöðvar 2 Sport í umfjöllun um leik Íslands og Wales í Þjóðadeildinni í gærkvöld.

Wales fékk nokkur algjör dauðafæri í fyrri hálfleik og komst í 2-0 en Ísland hafði algjöra yfirburði allan seinni hálfleik og varamaðurinn Logi Tómasson jafnaði metin með tveimur mörkum.

„Þetta er sagan endalausa, undir stjórn Åge. Þetta er búið að vera oft mjög gott, einn hálfleikur, og við höfum talað um það oft. En aldrei náum við að tengja saman níutíu góðar mínútur,“ sagði Kári á Laugardalsvelli í gærkvöld. Brot úr umfjölluninni má sjá hér að neðan.

„Munurinn á liðinu í fyrri og seinni hálfleik… þetta er frekar sjokkerandi. Að þeir geti spilað svona og líka breytt því svona í hálfleik og komið út með þessari ákefð.

Auðvitað gerir hann breytingar og Mikael Egill gerir gríðarlega vel. Við fáum mikinn hraða og mikla ákefð úr hans pressu. Hann fær tvo færi og það gefur okkur blóð á tennurnar. Svo klárar Logi þetta. En það er bara allt annað að sjá liðið,“ sagði Kári.

Craig Bellamy, þjálfari Wales, vill að sitt lið haldi boltanum sem mest en Kári var undrandi á því að liðið skyldi ekki breyta til í seinni hálfleiknum, miðað við hvernig hann þróaðist:

„Mér finnst í raun galið að Wales haldi áfram að spila út frá markmanni því þeir enda hvort sem er alltaf á að gefa langt. Þeir spila sig í eitthvað öngstræti og negla boltanum svo fram. Spila þetta algjörlega upp í hendurnar á okkur.“


Tengdar fréttir

Bella­my skammaði blaða­menn eftir leik

Craig Bellamy þjálfari landsliðs Wales var ekki alls kostar sáttur með þá bresku blaðamenn sem mættir voru á blaðamannfund eftir jafntefli Íslands og Wales í gær. Bellamy hrósaði íslenska liðinu í hástert á fundinum.

Hareide: „Við gerðum skelfileg mistök“

„Ég er mjög vonsvikinn því við spiluðum ekki eins og til stóð í fyrri hálfleiknum. Við gerðum skelfileg mistök sem eiga ekki að sjást í alþjóðlegum fótbolta,“ sagði Åge Hareide, þjálfari Íslands, eftir 2-2 jafnteflið við Wales í Þjóðadeildinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×