Fótbolti

Heimir minntist Baldock

Smári Jökull Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson stýrir írska landsliðinu gegn Grikklandi í Þjóðadeildinni á morgun.
Heimir Hallgrímsson stýrir írska landsliðinu gegn Grikklandi í Þjóðadeildinni á morgun. Vísir/Getty

Heimir Hallgrímsson minntist knattspyrnumannsins George Baldock á blaðamannafundi fyrir leik Írlands og Grikklands í Þjóðadeildinni á morgun. Baldock lék með ÍBV í efstu deild sumarið 2012.

Knattspyrnumaðurinn George Baldock fannst látinn við heimili sitt í Grikklandi á miðvikudaginn. Baldock lék um árabil með Sheffield United í enska boltanum og einnig með ÍBV sumarið 2012 þegar hann var lánaður til Eyjaliðsins frá MK Dons.

Heimir er uppalinn Eyjamaður og á að baki fjölmarga leiki sem bæði leikmaður og þjálfari ÍBV. Hann minntist Baldock á blaðamannafundi fyrir leik Írlands og Grikklands á morgun en Baldock var leikmaður gríska landsliðsins. Grikkir léku gegn Englendingum daginn eftir andlát Baldock en gríska knattspyrnusambandið óskaði eftir því að leiknum yrði frestað en fékk neitun.

„Ég held að þetta muni auka samheldni þeirra sem var mikil fyrir. Þeir eru með gott lið, erfitt að brjóta þá á bak aftur og erfitt að vinna þá. Eins og sást gegn Englandi,“ sagði Heimir í samtali við Irish Mirror.

„Augnablik eins og þessi færir, ekki bara liðið, heldur samfélagið saman og fær þig til að átta þig á að lífið er meira en bara fótbolta. Ég er aðeins tengdur honum því hann spilaði fyrir mitt uppeldisfélag á Íslandi þegar hann var 18 ára.“

„Við sendum auðvitað okkar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og allra annarra. Ég held að þeir verði sama liðið, bara aðeins meiri tilfinningar. Hvort það sé gott eða slæmt fáum við að sjá á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×