Fótbolti

„Þegar maður skorar tvö mörk vill maður fá eitt­hvað úr leiknum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andri Lucas skoraði annað mark Íslands í kvöld.
Andri Lucas skoraði annað mark Íslands í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er ógeðslega svekkjandi. Við unnum svo ótrúlega hart að okkur og mér fannst við ekki eiga skilið að tapa 4-2 í dag,“ sagði Andri Lucas Guðjohnsen eftir tap Íslands gegn Tyrkjum í Þjóðadeildinni í kvöld.

Andri skoraði annað mark Íslands í leiknum og jafnaði þá metin í 2-2. Markið skoraði hann þegar um sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, en Tyrkir skoruðu tvö mörk á lokamínútunum og tryggðu sér stigin þrjú.

„Við spiluðum fínan leik og voum þéttir. Við vissum að við myndum fá okkar séns og að þeir myndu fá þeirra sénsa. En svona mistök eru dýrkeypt,“ bætti Andri við, en þriðja mark Tyrkja kom eftir vægast sagt klaufaleg mistök Hákons Rafns Valdimarssonar í íslenska markinu.

„Þetta var svolítið fram og til baka. Bæði lið með leikmenn sem voru bara orðnir þreyttir. Við vorum svolítið lengi í hápressu í fyrri hálfleik, sem mér fannst við gera mjög vel, en við verðum kannski aðeins þreyttir í seinni og náum ekki að klára þessi hlaup. Leikurinn fer svolítið fram og til baka, en þetta er bara mjög svekkjandi.“

Hann segir margt jákvætt sem íslenska liðið getur tekið mér sér úr þessum landsleikjaglugga, en að hann hafi þó verið heldur kaflaskiptur.

„Já, nákvæmlega. Mér fannst við mjög hættulegir og fengum fullt af skyndisóknum. Ég held að ég hafi náð að tengja mjög vel við Orra [Stein Óskarsson] og kantmennirnir okkar voru mjög duglegir að taka hlaupin á bakvið bakverðina þeirra. Við vorum að ógna mjög mikið og komast í mjög góðar stöður.“

„Oftast þegar maður skorar tvö mörk vill maður fá eitthvað út úr leiknum, en því miður náðum við því ekki í dag.“

Að lokum segir Andri þó að íslenska liðið ætli sér að loka Þjóðadeildinni með stæl, með tveimur útileikjum í nóvember.

„Já, ´hundrað prósent. Við förum bara í þessa leiki og tökum það jákvæða með okkur úr þessum leikjum. Svo er það bara fulla ferð í þessa tvo útileiki,“ sagði Andri að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×