Í raun hafa aðeins tveir hafa skorað fyrr í landsleik en Orri í gær en íslenska liðið hefur aðeins skorað tvö mörk á fyrstu eða annarri mínútu.
Metið er orðið 67 ára gamalt og verður seint slegið. Ríkharður Jónsson skoraði eftir aðeins sautján sekúndur í leik á móti Belgum í undankeppni HM 1958.
Leikurinn fór fram á Laugardalsvellinum 4. september 1957 en þrátt fyrir þetta draumabyrjun þá tapaðist leikurinn 5-2.
Sigurður Grétarsson komst næst því þegar hann skoraði á annarri mínútu í vináttulandsleik á móti Tyrkjum á Laugardalsvellinum í júlí 1991. Markið hans kom eftir aðeins 68 sekúndur og íslenska liðið vann leikinn á endanum 5-1.
Ríkarður Jónsson skoraði líka á þriðju mínútu í leik á móti Laugardalsvelli 1962 og síðan hafa fimm aðrir náð því að skora svona snemma.
Síðastur á undan Orra til að ná svona góðri byrjun var Davíð Kristján Ólafsson í 7-0 stórsigri á Liechtenstein í Vaduz í fyrra.
Tvö af þessum sjö mörkum komu beint úr aukaspyrnu en mark Arnars Gunnlaugssonar á móti Svíum 1995 og mark Þórðar Guðjónsson á móti Færeyjum 1999 komu á þriðju mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu.
Jóhann Berg Guðmundsson skoraði einnig fyrsta markið sitt í þrennunni eftirminnilegu í Bern á þriðju mínútu.
- Fljótastir til að skora í A-landsleik karla:
- 1. mínúta Ríkharður Jónsson á móti Belgíu á Laugardalsvellinum 1957 (17 sekúndur)
- 2. mínúta Sigurður Grétarsson á móti Tyrklandi á Laugardalsvellinum 1991 (68 sekúndur)
- 3. mínúta Orri Steinn Óskarsson á móti Tyrklandi á Laugardalsvellinum 2024
- 3. mínúta Ríkharður Jónsson á móti Noregi á Laugardalsvellinum 1962
- 3. mínúta Arnar Gunnlaugsson á móti Svíþjóð í Solna 1995
- 3. mínúta Þórður Guðjónson á móti Færeyjum í Þórshöfn 1999
- 3. mínúta Jóhann Berg Guðmundsson á móti Sviss í Bern 2013
- 3. mínúta Davíð Kristján Ólafsson á móti Liechtenstein í Vaduz 2023