Það var yndislegt að fá að taka þátt í söngstund á Dalbæ þar sem fólkið er með sína söngbók og svo er bara sungið og sungið, stundum með undirspili og stundum hópurinn saman án undirspils. Starfsfólkið hefur ekki síður gaman af þessum stundum.
Þetta gefur fólkinu greinilega mikið?
„Já, mjög mikið, það eru alltaf allir mjög mikið brosandi, sem koma. Það er kaffi beint eftir söngstundina og það eru allir mjög mikið brosandi eftir þetta. Það er alltaf full stofan, allir að syngja með,” segir Selma Rut Guðmundsdóttir, starfsmaður á Dalbæ.

Hvað segir þú, er ekki gaman hér í söngstundinni ?
„Jú, jú, þetta er mjög gaman, við erum að syngja allt mögulegt upp úr þessari bók,” segir Ástdís Lilja Óskarsdóttir heimilismaður á Dalbæ en hún frá Kóngsstöðum í Skíðadal .

Eins og gefur að skilja heyrist mis vel í söngfólkinu, sumir beita sér mjög mikið á meðan aðrir eru rólegri.
Og þú syngur manna hæst eða hvað?
„Já, ég geri það, þessa rödd fékk hjá föður mínum. Það er alltaf gaman að syngja, ég bíð eftir þessum stundum,” segir Þóra Jóna Finnsdóttir íbúi á Dalvík, sem er í dagdvöl á Dalbæ.

En rétt að skjóta inn í ótengt söngnum, veðurklúbburinn á Dalbæ er örugglega langþekktasti veðurklúbbur landsins og þó víðar væri leitað en klúbburinn spáði einmitt í lok sumars góðu hausti og vetri fram að jólum, að það virðist allt vera að rætast.
„Það er nú ótrúlega oft, sem þau eru glúrin og kemur eitthvað skemmtilegt frá þeim en þau verða líka spæld þegar spáin rætist illa,” segir Elísa Rán Ingvarsdóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri á Dalbæ.

En aftur að sönghópnum, ef eitthvað lag er vinsælt á Dalbæ þá er það Liljan, það er sungið á hverri einustu söngstund.