Jón, sem verið hefur í hléi frá fótbolta síðan samningur hans við Bolton rann út í sumar, skrifaði á dögunum undir samning við C-deildar lið Wrexham.
„Ég er bara upp í sófa að horfa á sjónvarpið þegar ég fæ símtal frá þjálfara Wrexham og hann spurði mig hvort ég væri til í að taka þátt í þessu með þeim og skrifa undir við þá,“ segir Jón og heldur áfram.
„Þetta gerðist mjög hratt en þetta er mjög spennandi. Það er mjög spennandi hvað þessi klúbbur er metnaðarfullur og hvert þeir eru að stefna. Að fá að vera partur af því er mjög gaman og þetta var í raun aldrei spurning þegar ég heyrði frá þeim.“
Wrexham er í baráttu um að komast upp í næstefstu deild og er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar. Efstu tvö liðin fara beint upp í B-deildina.
Fljúga í leiki
„Ég er búinn að mæta á eina æfingu og ferðaðist með þeim í leik um helgina. Ég var ekki í hóp en fékk svona að kynnast strákunum og öllum í kringum liðið. Maður er að fá góða tilfinningu fyrir öllu og er að koma mér vel fyrir þarna. Það kom mér mjög á óvart hvað það er hár standard hjá liðinu. Það er til að mynda sér kokkur fyrir okkur og liðið flýgur í suma leiki sem ég hef aldrei heyrt um í þessari deild, ekki einu sinni í deild fyrir ofan.“
Jón segir að möguleiki sé á eins árs framlengingu þegar samningurinn hans við liðið rennur út í janúar. Wrexham er í eigu Hollywood-stjarnanna Ryan Reynolds og Rob McElhenney, sem eignuðust félagið árið 2020, þegar það var í E-deild. Það hefur svo einnig skapað sér miklar vinsældir um allan heim með heimildaþáttunum Welcome to Wrexham.
„Þeir eru alveg duglegir að mæta og virkilega metnaðarfullir. Strákarnir segja að þeir séu eins duglegir og þeir geta að mæta. Þetta eru auðvitað mjög uppteknir menn. Það er bara gaman að hafa þennan Hollywood keim á þessu öllu saman, það er bara fyndið og skemmtilegt.“