Íslenska kvennalandsliðið lék tvo leiki í Bandaríkjunum og voru þessir leiki í hópi þeirra leikja sem fengu bestu aðsóknina í glugganum.
Flestir mættu þó á leik Englands og Þýskalands á Wembley leikvanginum en á hann mættu næstum því 48 þúsund manns.
Það mættu yfir 26 þúsund manns á leik Þýskalands og Ástralíu sem fram fór í Duisburg í Þýskalandi.
Í þriðja sætinu var síðan hinn leikur enska landsliðsins sem var á móti Suður-Afríku og fór fram í Coventry. Það komu yfir tuttugu þúsund manns á hann.
Ensku og þýsku liðin voru því í nokkrum sérflokki.
Leikir Bandaríkjanna og Íslands voru aftur á móti í fjórða og fimmta sætinu. 18.580 manns mættu á fyrri leikinn sem var spilaður á Q2 Stadium í Austin í Texas-fylki. 17.018 manns mættu síðan á seinni leikinn á Geodis Park í Nashville í Tennessee fylki.
Bandarísku stelpurnar unnu báða leikina 3-1 en íslenska liðið jafnaði í 1-1 í fyrri leiknum og var lengi 1-0 yfir í þeim síðari.