Það voru þau Búi Bjarmar Aðalsteinsson, vöruhönnuður og Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt sem stýrðu samtali við tilnefnda og sáu svo um að kynna verðlaunaafhendinguna sem fór fram fyrir fullum sal.
Sigurvegarar verðlaunanna í ár voru Krónan sem hlaut viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun, Gísli B. Björnsson, grafískur hönnuður sem er Heiðursverðlaunahafi ársins, peysan James Cook sem unnin er í samstarfi Helgu Lilju Magnúsdóttur fatahönnuðar og Stephan Stephensen listamanns, fyrir BAHNS er Vara ársins, Smiðja, skrifstofubygging Alþingis eftir Studio Granda er Staður ársins og Börnin að borðinu eftir Þykjó er Verk ársins.


Hönnunarverðlaun Íslands fóru fram í ellefta sinn í ár og veitt í þremur flokkum - Vara - Staður - Verk. Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er leitað að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.

