Fyrir leikinn í kvöld voru Ítalir með þriggja stiga forskot á toppi riðilsins og þurftu Frakkar því sigur til að ná toppsætinu.
Þeir byrjuðu líka heldur betur af krafti því Adrien Rabiot kom Frökkum yfir með markið strax á 2. mínútu og Guglielmo Vicario markvörður Ítalíu var síðan afar óheppinn þegar aukaspyrna Lucas Digne fór í þverslána og af baki Vicario á 33. mínútu. Staðan orðin 2-0 og Frakkar í góðri stöðu.
Andrea Cambiaso minnkaði muninn í 2-1 skömmu eftir annað mark Frakka og staðan var þannig í hálfleik. Um miðbik síðari hálfleiks skoraði Adrien Rabiot síðan sitt annað mark sem reyndist það síðasta í leiknum. 3-1 sigur Frakka staðreynd sem þar með vinna riðilinn og fara áfram í undanúrslit A-deildarinnar.
Í hinum leik riðilsins unnu Ísraelar óvæntan sigur á Belgum en leikurinn fór fram á Bozsik Arena í Búdapest og þar skoraði Yarden Shua eina mark leiksins á 86. mínútu. Ísraelar og Belgar enda jöfn í tveimur neðstu sætum riðilsins en Ísraelar falla í B-deild vegna innbyrðisviðureigna.