Kári sló Skarphéðin Ívar Einarsson, leikmann Hauka, í andlitið, án nokkurs fyrirvara, í bikarleik á Ásvöllum á sunnudaginn. Atvikið má sjá á upptöku á vef RÚV, eftir 1:16:33, en það átti sér stað um miðjan seinni hálfleik, í stöðunni 25-19.
Dómarar leiksins sáu ekki atvikið og Kári hlaut því enga refsingu í leiknum sjálfum, sem Haukar unnu hvort sem er með miklum mun, 37-29.
Ekki refsað fyrir brot í leik við Fram
Samkvæmt reglum sem tóku gildi í september 2020 gat framkvæmdastjóri HSÍ sent aganefnd erindi vegna málsins, eftir að ljóst var að dómarar hefðu ekki séð brotið.
Framkvæmdastjórinn sendi raunar erindi vegna tveggja mála, því Kári virtist einnig gerast sekur um gróft brot í deildarleik gegn Fram.
Í rökstuðningi fyrir banninu vegna höggs Kára gegn Haukum segir: „Með vísan til þess að um var að ræða illkvittna aðgerð gegn óviðbúnum mótherja í skilningi reglu 8:6 b), er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í tveggja leikja bann.“
Bannið tekur strax gildi.
Aganefnd refsar Kára hins vegar ekki vegna leiksins við Fram og segir að út frá upptöku af því atviki hafi verið erfiðara að slá nokkru föstu.