Åge Hareide varð tíundi landsliðsþjálfari Íslands frá og með árinu 2000 en tveir af þeim, Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson, þjálfuðu liðið saman.
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck þjálfuðu liðið bæði í sitthvoru lagi sem og saman. Heildarárangur hjá hvorum er notaður í þessum útreikningi.
Åge Hareide tók við íslenska landsliðinu af Arnari Þór Viðarssyni í byrjun sumars 2023 og stýrði því í um átján mánuði. Lokaleikurinn var tapleikurinn á móti Wales í síðustu viku.
Íslenska landsliðið vann 40 prósent leikja sinna undir stjórn Hareide og var með 45 prósent árangur. Það skilar honum þriðja sætinu á öldinni á eftir þeim Heimi Hallgrímssyni (52,6%) og Lars Lagerbäck (50%).
Undir stjórn Hareide skoraði íslenska liðið 1,45 mörk í leik sem er einnig það þriðja besta á þessum tíma en liðið kom aftur á móti mun verr út í varnarleiknum. Undir stjórn Norðmannsins fékk íslenska liðið 1,65 mörk á sig í leik og það er aðeins sjötti besti árangurinn hjá þjálfurum Íslands á öldinni.
Sérstaka athygli vekja fá jafntefli í leikjum Hareide en íslenska liðið gerði aðeins tvö jafntefli í þessum tuttugu leikjum. Það er langlægsta hlutfall jafntefla (tíu prósent) í leikjum undir stjórn ákveðinna landsliðsþjálfara en næstur er Atli Eðvaldsson með sextán prósent.
- Besti árangur landsliðaþjálfara á öldinni (2000-2024):
- 1. Heimir Hallgrímsson 52,6%
- 2. Lars Lagerbäck 50,0%
- 3. Åge Hareide 45,0%
- 4. Atli Eðvaldsson 43,5%
- 5. Erik Hamrén 41,1%
- 6. Arnar Þór Viðarsson 40,3%
- -
- Flest mörk í leik hjá landsliðaþjálfurum á öldinni (2000-2024):
- 1. Heimir Hallgrímsson 1,55
- 2. Lars Lagerbäck 1,50
- 3. Åge Hareide 1,45
- 4. Ásgeir Sigurvinsson /Logi Ólafsson 1,38
- 5. Atli Eðvaldsson 1,26
- 6. Arnar Þór Viðarsson 1,19
- -
- Fæst mörk fengn á sig í leik hjá landsliðaþjálfurum á öldinni (2000-2024):
- 1. Ólafur Jóhannesson 1,28
- 2. Heimir Hallgrímsson 1,29
- 3. Lars Lagerbäck 1,46
- 4. Atli Eðvaldsson 1,55
- 5. Arnar Þór Viðarsson 1,58
- 6. Åge Hareide 1,65
- -
- Lægsta hlutfall jafntefla meðal landsliðaþjálfara á öldinni (2000-2024):
- 1. Åge Hareide 10,0%
- 2. Atli Eðvaldsson 16,1%
- 3. Erik Hamrén 17,9%
- 4. Heimir Hallgrímsson 19,0%
- 5. Lars Lagerbäck 19,2%
- 6. Ásgeir Sigurvinsson /Logi Ólafsson 20,8%