Þetta var fyrsti leikur Noregs á síðasta stórmótinu undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Hann hefur stýrt norska liðinu frá 2009. Undir hans stjórn hefur Noregur unnið tíu gullverðlaun á stórmótum.
Henny Reistad skoraði níu mörk fyrir norska liðið sem var fimm mörkum yfir í hálfleik, 16-11. Stine Skogrand og Emilie Hovden skoruðu fimm mörk hvor fyrir Noreg sem mætir heimaliði Austurríkis í næsta leik sínum á laugardaginn.
Kristín Þorleifsdóttir skoraði eitt mark fyrir Svíþjóð sem sigraði Norður-Makedóníu, 28-18, í A-riðli.
Í C-riðli rúllaði Frakkland svo yfir Pólland, 35-22.