Norsku stelpurnar unnu þá mjög sannfærandi átta marka sigur á Ungverjalandi, 30-22 í undanúrslitaleiknum í Vín.
Norska liðið var með frumkvæðið allan leikinn og mæta nú annað hvort Frakklandi eða Danmörku í úrslitaleiknum á sunnudaginn.
Þær norsku komust í 4-1, voru 13-8 yfir og leiddu 13-11 í hálfleik. Noregur skoraði síðan tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik sem kom þeim 15-11 yfir og eftir það var róðurinn þungur hjá ungverska liðinu.
Norska liðið komst átta mörkum yfir, 24-16, og vann að lokum með þessum átta marka mun.
Henny Reistad var atkvæðamest í norska liðinu með sjö mörk en þær Emilie Hovden og Thale Rushfeldt Deila voru með fimm mörk hvor . Katrine Lunde varði líka vel í markinu.
Norsku stelpurnar hafa unnið alla átta leiki sína á mótinu til þessa. Þær höfðu mikla yfirburði í þessum leik og eru líklegar til afreka í úrslitaleiknum.
Þórir er að kveðja norska liðið á þessu móti en hann hefur verið aðalþjálfari liðsins frá árinu 2009.
Úrslitaleikurinn á sunnudaginn verður fjórtándi úrslitaleikur norska liðsins á stórmóti undir hans Þóris.
Liðið hefur unnið fimm af sex úrslitaleikjum sínum á EM undir stjórn Selfyssingsins.