Það hefur hvorki gengið né rekið hjá liði Wolves í ensku úrvalsdeildinni síðustu vikurnar. Liðið tapaði sínum fjórða leik í röð þegar liðið beið lægri hlut gegn Ipswich í gær en sigurmark Ipswich kom í uppbótartíma.
Knattspyrnustjórinn Gary O´Neil þykir sitja í afar heitu sæti og í augum margra sérfræðinga er það aðeins tímaspursmál hvenær honum verður sagt upp störfum.
Það gætu hins vegar fleiri en O´Neil verið í vandræðum. Eftir tapið gegn Ipswich í gær virtist allt fara í upplauns hjá leikmönnum Úlfanna. Varnarmaðurinn Rayan Ait-Nouri virtist eiga eitthvað vantalað við liðsfélaga sinn og þurfti reynsluboltinn Craig Dawson að halda Ait-Nouri og hreinlega bera hann út af vellinum.
Proper head-loss from Ait Nouri filmed by @NathanJudah. pic.twitter.com/UhIUShzDrr https://t.co/MmL6BuuKJm
— HLTCO (@HLTCO) December 14, 2024
Þá lenti framherjinn Matheus Cunha í orðaskiptum við starfslið Ipswich og sást til hans ýta í andlit öryggisvarðar á vegum Ipswich sem missti gleraugun í látunum.
Knattspyrnustjórinn Gary O´Neil var ekki ánægður með hegðun sinna manna.
„Ég veit að það er pressa á þeim í augnablikinu en að gera hlutina erfiðari fyrir okkur sjálfa er óásættanlegt. Við munum vinna með Rayan innan okkar herbúða. Hann veit án þess að ræða við mig hvað mér finnst um þetta.“



Wolves situr í 19. sæti ensku deildarinnar og er fjórum stigum á undan botnliði og sömuleiðis fjórum stigum frá öruggu sæti. Liðið mætir Leicester um næstu helgi í afar mikilvægum leik í botnbaráttunni.