Havertz klúðraði dauðafæri undir lok venjulegs leiktíma í gær og var svo sá eini sem klikkaði á sinni spyrnu í vítakeppninni. United vann hana, 3-5, eftir að staðan hafði verið 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu.
Eftir leikinn beindist reiði stuðningsmanna Arsenal aðallega að Havertz. Nokkrir þeirra fóru langt yfir strikið með því að senda óléttri eiginkonu þýska landsliðsmannsins ljót skilaboð.
Aðrir voru á léttari nótunum, meðal annars umsjónarmaður X-síðu Domino's í Bretlandi. Hann gat ekki stillt sig um að skjóta aðeins á Havertz.
„Sorrí ef við klúðruðum einhverjum pöntunum í kvöld. Þessi gaur bara að byrja,“ stóð við mynd af Havertz á X-síðu Domino's.
sorry if we’ve missed any orders tonight, we’ve just had this guy start pic.twitter.com/lXkhIE3I2k
— Domino's Pizza UK (@Dominos_UK) January 12, 2025
Havertz fiskaði víti þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka í viðureigninni í gær. Martin Ødegaard tók spyrnuna en Altay Bayindir varði hana. Tyrkinn varði svo einnig frá Havertz í vítakeppninni.
Næsti leikur Havertz og félaga í Arsenal er gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudaginn.