Lífið

Baldoni stefnir Lively sem lætur sér fátt um finnast

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Justin Baldoni segir Blake Lively og „drekana“ hennar tvo þau Ryan Reynolds og Taylor Swift hafa beitt sig óeðlilegum þrýstingi.
Justin Baldoni segir Blake Lively og „drekana“ hennar tvo þau Ryan Reynolds og Taylor Swift hafa beitt sig óeðlilegum þrýstingi. Vísir/Getty

Justin Baldoni hefur ákveðið að stefna Blake Lively og eiginmanni hennar Ryan Reynolds meðal annars vegna þess sem hann segir vera kúgun af þeirra hálfu og ófrægingarherferð. Lögmenn leikkonunnar hafa tjáð sig um stefnuna og segja að um sé að ræða annan kafla í „handbók ofbeldismannsins.“

Stefnan hljóðar upp á 400 milljónir Bandaríkjadollara en líkt og áður hefur komið fram hefur Lively þegar lagt fram kvörtun gegn Baldoni í undirbúningi fyrir lögsókn vegna meints kynferðislegs áreitis hans og áróðursherferðar gegn henni. Þau léku saman í kvikmyndinni It ends with us sem Baldoni leikstýrði og hafa allar götur síðan rifist opinberlega eins og hundur og köttur. Baldoni vill með málið alla leið fyrir dómstóla.

Gríðarlega athygli vakti í ágúst þegar myndin kom út að þau Baldoni og Lively, létu aldrei sjá sig á sama stað þegar myndin var kynnt og markaðssett. Gömul viðtöl þar sem Lively var óþægileg voru rifjuð upp og spjótin beindust í miklum mæli að henni. Það var svo í síðasta mánuði sem Lively sagði að Baldoni hefði sett af stað umfangsmikla áróðursherferð gegn henni til að rústa orðspori hennar, ef ske kynni að hún myndi gera ásakanir sínar opinberar.

Ryan Reynolds og Taylor Swift hafi þrýst á hann

Stefna Baldoni er 179 blaðsíður að lengd, að því er fram kemur í umfjöllun People og þar kennir ýmissa grasa. Hann sakar Lively um að hafa reynt af öllum krafti að eignast réttindi að myndinni. Hann segir þau auk þess hafa sett af stað viðamikla herferð í þeim tilgangi að rústa mannorði hans en Baldoni hefur ávallt þvertekið fyrir að hafa kynferðislega áreitt Lively líkt og hún hefur haldið fram.

Þá fullyrðir hann að Taylor Swift stórstjarna og vinkona Lively hafi ásamt eiginmanni Lively, leikaranum Ryan Reynolds, þrýst á Baldoni að verða við óskum hennar um að endurskrifa hluta úr handriti myndarinnar. Hann hafi orðið við því.

Segir að um sé að ræða mikilvægt atriði þar sem persónur þeirra hafi hitt hvort annað í fyrsta sinn uppi á húsþaki. Baldoni hafi viljað óbreytt atriði, talið það skipta sköpum fyrir myndina. Lively hafi gjörbreytt atriðinu og ekki talað við hann í nokkra daga eftir að hann hafi mótmælt þessu.

Baldoni fullyrðir að hann hafi svo verið boðaður á fund með Ryan Reynolds í þakíbúð hans í New York. Þar hafi Taylor Swift verið stödd og talið borist að handritinu þar sem hún hafi hrósað breytingum Lively í hástert. Baldoni segir að þarna hafi verið þrýst á hann að verða við óskum hennar.

Atriðið umdeilda má horfa á hér fyrir neðan. 

Hann hafi sent Lively SMS og sagt henni að hún þyrfti ekki að senda sitt fólk í að þrýst á hann, hann væri til í þetta. Segir Baldoni að Lively hafi þá sagt honum að hún væri líkt og Khaleesi í Game of Thrones og að Taylor Swift og Ryan Reynolds væru drekarnir hennar tveir.

Áður hefur komið fram að Lively hafi sagt í viðtali við E á frumsýningu myndarinnar í New York í ágúst að atriðið umdeilda á þakinu hafi í raun verið skrifað af eiginmanni hennar. „Það veit það enginn nema þú núna!“ sagði hún við fréttamann.

Sé bara næsti kafli í handbókinni

Lögmenn Blake Lively voru fljótir að senda frá sér yfirlýsingu eftir að fréttir bárust af því í gær að Baldoni hefði stefnt leikkonunni. Þeir segja um aldagamla sögu að ræða.

„Kona tjáir sig og setur fram skotheld sönnunargögn sem sýna fram á kynferðislega áreitni og hefnd og ofbeldismaðurinn reynir að snúa spjótunum að fórnarlambinu,“ hefur Hollywood Reporter eftir lögmönnum leikkonunnar. Þeir segja fantabrögð Baldoni hægt að kenna við DARVO á ensku (e. Deny. Attack. Reverse Victim Offender) sem á íslensku útleggst sem svo að neita öllu, blása til sóknar og snúa hlutverkum fórnarlambs og brotamanns á hvolf.

Fram kemur í umfjöllun miðilsins að lögmenn Baldoni hafi farið fram á að farið verði með málið alla leið fyrir dómstóla. Segir í umfjölluninni að það verði að teljast afar líklegt að svo verði, enda hvorugt líklegt til þess að gefa eftir. Möguleiki sé á að báðar stefnur þeirra á hendur hvort öðru verði teknar fyrir í sömu réttarhöldum. Baldoni hefur einnig stefnt New York Times fyrir umfjöllun sína um meinta hegðun hans á setti myndarinnar og sakað miðilinn um að hafa birt einhliða frásögn Lively af málavöxtum. 


Tengdar fréttir

Blake Lively umdeild forsíðustúlka septemberblaðsins

Súperstjarnan og leikkonan Blake Lively prýðir forsíðu septemberblaðs Vogue sem er jafnframt alltaf stærsta útgáfa ársins hjá tímaritinu. Forsíðan minnir á gamaldags Hollywood glamúr og hafa netverjar tjáð skiptar skoðanir á þessu vali. Lively hefur sömuleiðis verið gagnrýnd fyrir markaðssetningu á nýrri kvikmynd sem hún fer með aðalhlutverk í. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.