Einar Jónsson og Bjarni Fritzson mættu til Stefáns Árna Pálssonar í Besta sætið og gerðu upp frækinn 27-24 sigur Íslands á Egyptum á HM í handbolta. Liðið hefur nú unnið fyrstu fjóra leikina á mótinu.
„Viktor Gísli byrjar leikinn eins og það hafi verið að framlengja síðasta leik. Hann var rosalegur til að byrja með,“ sagði Stefán Árni Pálsson.
„Hvað er að gerast með gaurinn? Hann er rosalegur,“ sagði Bjarni Fritzson.
„Viktor Gísli er að verða einn af bestu markvörðum í heimi. Hann er besti eða einn af þremur bestu sex metra markvörðum í heiminum. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Einar Jónsson.
„Vörnin okkar er þannig að við náum að pressa menn í þannig skot að honum líður vel með það. Við getum ekki búist við svona frammistöðu frá honum leik eftir leik. Auðvitað fengum við ekki sömu frammistöðu í sextíu mínútur í þessum leik en í þrjátíu mínútur þá hékk hann í fimmtíu prósent markvörslu,“ sagði Einar.
„Að koma eftir síðasta leik og í raun og veru að halda áfram er stórkostlegt. Það er meira en að segja það,“ sagði Einar.
„Við höfum beðið svo ótrúlega lengi eftir svona markverði. Þetta er svona svindlmaður,“ sagði Bjarni.
„Við höfum verið með fullt af fínum markvörðum og allt það. En svona svindlmaður eins og Landin í Danmörku eða Omeyer í Frakklandi. Einhverjir gaurar sem unnu bara leiki og unnu bara mót, ekki alveg einir en smá. Slátruðu leikjum á svona rosalega háu leveli,“ sagði Bjarni.
Það má hlusta á meira um frammistöðu Viktors Gísla og landsliðsins í þættinum sem er í heild sinni hér fyrir neðan.