Enski boltinn

Út­skýrði af hverju Napoli fékk ekki Garnacho

Sindri Sverrisson skrifar
Alejandro Garnacho er áfram í herbúðum Manchester United og lék allan leikinn gegn Crystal Palace um helgina.
Alejandro Garnacho er áfram í herbúðum Manchester United og lék allan leikinn gegn Crystal Palace um helgina. Getty/Sebastian Frej

Launakröfur Alejandro Garnacho gerðu það að verkum að Napoli, topplið Ítalíu, gat ekki fengið argentínska vængmanninn frá Manchester United í janúar. Áhugi Ítalanna var þó mikill.

Þetta segir Giovanni Manna, yfirmaður íþróttamála hjá Napoli, samkvæmt fréttamanninum Fabrizio Romano.

Nokkur óvissa ríkti um Garnacho áður en félagaskiptaglugginn lokaðist á mánudagskvöld, eða frá því að Rúben Amorim tók hann og Marcus Rashford út úr leikmannahópi United fyrir stórleikinn við Manchester City í desember, og talaði um að hugarfar leikmanna þyrfti að vera betra á æfingum.

Fréttir bárust af því að Napoli hefði gert 40 milljóna punda tilboð í Garnacho en að United hefði hafnað því. Félagið lánaði Rashford til Aston Villa en endaði á að halda Garnacho í sínum röðum og spilaði hann allan leikinn gegn Crystal Palace á sunnudaginn, í 2-0 tapi.

Napoli seldi georgíska snillinginn Kvicha Kvaratskhelia til PSG fyrir jafnvirði 59 milljóna punda en það dugði þó ekki til að ítalska félagið keypti Garnacho í staðinn.

„Við gerðum Manchester United mikilvægt tilboð í Garnacho. Við vildum virkilega mikið fá hann,“ sagði Manna.

„Okkur tókst ekki að ná samkomulagi við Alejandro um kaup og kjör. Hann fór fram á mikilvæg laun til þess að fara í janúar en við verðum að sýna leikmönnum okkar virðingu,“ sagði Manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×